Fótbolti

Vill eignast lið í hverri heims­álfu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Michele Kang á Ólympíuleikunum í sumar.
Michele Kang á Ólympíuleikunum í sumar. Andrea Vilchez/ISI/Getty Images

Michele Kang á sem stendur þrjú knattspyrnufélög í tveimur heimsálfum en hún vill ólm eignast félag í hverri heimsálfu.

Kang komst í heimsfréttirnar þegar hún keypti meirihluta í franska stórveldinu Lyon, það er kvenna liði félagsins sem hefur unnið fjöldann allan af titlum á undanförnum árum. Þá á hún Washington Spirit í Bandaríkjunum og London City Lionesses í Englandi, bæði eru eingöngu kvennalið.

Hún ætlar að fjárfesta 50 milljónir Bandaríkjadala, tæpa sjö milljarða íslenskra króna, í heilsu knattspyrnukvenna þar sem nær öll gögn sem til eru miða við karlkyns leikmenn. Þá fjárfesti hún fjórar milljónir Bandaríkjadala í kvennalandslið Bandaríkjanna í rúgbí eftir að liðið vann til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í París. Vonast Kang til að fjárfestingin hjálpi liðinu að vinna gull á leikunum sem fram fara í Los Angeles eftir fjögur ár.

„Það var dýr leikur fyrir mig,“ segir Kang í gríni við The Guardian eftir að hafa séð Bandaríkin vinna til bronsverðlauna. Það kom henni hins vegar á óvart að engin/n hefði fjárfest í liðinu á undan henni.

„Ég vil sýna og sanna að kvennaíþróttir séu góð ávöxtun fjárhagslega. Munurinn á hvar þær eru og hvað þær geta orðið er gríðarlegur, ég á ekki orð yfir að enginn hafi séð það,“ bætti hún við.

Í viðtali við The Guardian tekur Kang fram að ekki sé um góðgerðarstarf að ræða heldur ígrundaða fjárfestingu. Bendir hún á að lið Angel City í NWSL-deildinni sé metið á 250 milljónir Bandaríkjadala, tæpa 35 milljarða króna, en ekki er langt síðan lið deildarinnar voru metin aðeins á tvær til fimm milljónir Bandaríkjadala.

Kang viðurkennir þó að markmið hennar sé að hluta til að bæta líf ungra íþróttakvenna. Hún hafi upphaflega ekki ætlað að færa sig yfir í íþróttir en nú vill hún gjarnan eiga knattspyrnulið í hverri heimsálfu.

„Ég veit ekki hversu mörg lið ég vil eiga en ég vil án efa eiga lið í hverri heimsálfu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×