Sport

„Við höfum ekki þekkst lengi en það gengur vel“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Parið stefnir á Evrópumót í janúar.
Parið stefnir á Evrópumót í janúar. vísir / arnar

Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Manuel Piazza verða þau fyrstu til að keppa fyrir Íslands hönd í parakeppni á listskautum.

Júlía er 19 ára gömul og hefur keppt fyrir hönd Íslands allan sinn feril en hingað til í einstaklingskeppni. Þar hefur hún góðum árangri og varð fyrr á þessu ári fyrst Íslendinga til að vinna gullverðlaun á alþjóðlegu móti í fullorðins flokki. Nú ætlar hún að reyna fyrir sér í parakeppni.

„Ég er svo spennt fyrir því, við höfum ekki þekkst lengi en það gengur vel. Ég er enn þá bara að læra á hvernig það er að vera para skautari, það kemur bara með tímanum og við munum byrja að keppa núna í nóvember.“

Ítalskur dansfélagi

Samkvæmt reglum þarf bara annar aðilinn að vera íslenskur og því verður með Júlíu á svellinu: Manuel Piazza, 24 ára skautari frá Ortisei á norður-Ítalíu.

„Ég hef skautað með henni í einhverja tvo mánuði. Það er mjög spennandi að keppa fyrir Íslands hönd með henni. Ég hef þekkt Júlíu í nokkur ár, hún hefur komið til Ítalíu að skauta á sumrin. Þjálfari hennar er líka ítalskur, þjálfari minn hefur þekkt hana síðan hún var barn. Þegar ég var að leita að nýjum skautafélaga spurðum við hana hvort hún vildi prófa. Hún kom til Ítalíu og lét reyna á þetta, síðan höfum við verið að skauta saman og ákváðum að keppa fyrir Íslands hönd.“

Æfingabúðir og Evrópumót framundan

Parið mun eyða næstu mánuðum í Afreksmiðstöð Alþjóðaskautasambandsins í Bergamo á Ítalíu, þar munu stífar æfingar fara fram og stefnan er að ná lágmarki fyrir Evrópumótið sem fer fram í byrjun næsta árs. Langtímamarkmiðið er svo að komast á Vetrarólympíuleikana í frönsku ölpunum árið 2030.

„Það er okkar markmið fyrir þetta tímabil. Við vinnum bara að því núna og sjáum hvernig það verður. [Ólympíuleikarnir] eru alltaf það sem maður stefnir á.“

Innslagið úr Sportpakka gærkvöldsins má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×