Um­fjöllun: Flora - Víkingur 1-2 | Valdimar frá­bær er Víkingur tryggði sig í umspilið

Ólafur Þór Jónsson skrifar
454560565_26771678332417465_804208990988407195_n
vísir/diego

Víkingur vann 2-1 sigur gegn Flora í Tallinn í dag og tryggði sér þar með sæti í umspili um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu. Fyrri leikurinn í Víkinni endaði 1-1.

Víkingar mæta Santa Coloma frá Andorra í umspilinu og eru því í dauðafæri á að komast í sjálfa riðlakeppni Sambandsdeildarinnar, líkt og Breiðablik afrekaði fyrst íslenskra liða í fyrra. Santa Coloma tapaði einvígi sínu við Rigas FS frá Lettlandi samtals 9-0, í undankeppni Evrópudeildarinnar, og mætir því Víkingum í umspili Sambandsdeildarinnar.

Leikið var á frábærum velli í Tallinn í Eistlandi í dag en Víkingum leið greinilega vel þar því fyrsta mark leiksins kom eftir einungis sex mínútna leik. Það var Aron Elís Þrándarson sem skoraði úr skalla eftir hornspyrnu þar sem Valdimar Þór flikkaði boltanum af nærstöng yfir á fjærstöng í aðdragandanum.

Víkingar fóru í skotgrafirnar eftir markið og gáfu Eistunum fullmikið af boltanum eftir það. Flora jafnaði leikinn en markið var dæmt af eftir langan umhugsunartíma í VAR herberginu.

Spenna á lokakaflanum

Fyrirliðinn Nikolaj Hansen skoraði svo annað mark Víkinga. Aftur var það Valdimar Þór sem á heiðurinn að markinu en hann vann boltann að harðfylgi inní vítateig Flora. Valdimar renndi boltanum út í teiginn þar sem Nikolaj lagði boltann í opið markið. Staðan í hálfleik 0-2 og staðan björt fyrir Víkinga.

Flora minnkaði muninn snemma í seinni hálfleiknum og var það fyrirliði þeirra Soomets sem skoraði með skoti fyrir utan teig.

Eistarnir lágu á Víkingum það sem eftir lifði leiksins og náðu sér í góð færi. Víkingar buðu Flora í dans sem heimamenn nýttu sér einfaldlega ekki og fleiri urðu mörkin ekki. Lokastaðan 1-2 fyrir Víkingum sem eru komnir í umspil fyrir riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

Víkingar voru klíniskir í fyrri hálfleik að ná fyrstu tveimur mörkunum. Það var alveg ljóst að gæðin voru miklu meiri í liði Íslandsmeistaranna og hefði sigurinn því átt að vera stærri. Heimamenn komust samt í góð færi og hefðu alveg getað jafnað leikinn í lokinn. Þeim skorti hinsvegar þessi umræddu gæði á síðasta fjórðungi og Víkingar voru þéttir í lokin.

Skulum ekkert taka af Víkingum sem þurftu að fara fjallabaksleiðina að þessum sigri þar sem liðið náði ekki að vinna á sínum heimavelli. Því var verkefnið ærið í dag þrátt fyrir að Víkingur væri betra liðið. Að því leiti gerir lið Víkinga virkilega vel að klára þetta einvígi.

Atvik leiksins

Flora jafnaði leikinn á 26. mínútu eftir algjöran afleik Víkinga varnarlega. Víkingur hafði á þeim tíma slakað full mikið á eftir fyrsta mark sitt og buðu Flora í dans. Markið var hinsvegar dæmt af í VAR herberginu þar sem Sergei Zenjov sem skoraði markið var með öxlina innfyrir þar sem hann lág í vítateignum þegar boltinn er á leið til hans.

Markið var vítamínsprauta fyrir Víkinga sem náðu öðru marki inn fjótlega eftir það og urðu ákveðnari í öllum sínum aðgerðum. Víkingar þakka fyrir VAR í dag, það er nokkuð ljóst!

Stjörnur og skúrkar

Valdimar Þór Ingimundarson var maður leiksins. Hann lagði upp bæði mörk Víkinga af mikilli snilld og var gríðarlega ógnandi í öllum sínum aðgerðum. Mikill stígandi hefur verið í leik Valdimars frá upphafi leiktíðar og er hann að stíga upp á besta tíma.

Nikolaj Hansen minnti einnig á hversu mikilvægur hann er fyrir Víkingsliðið. Hann vann alla bolta hátt á vellinum og hjálpaði Víkingum að halda pressu Flora ofarlega á vellinum. Þeir söknuðu hans mikið eftir að hann fór útaf eftir tæplega klukkustundar leik.

Það var nokkuð ljóst að dagsskipulag Flora var að fara upp hægri kantinn og komast á bakvíð Karl Friðleif. Því miður tókst það bara ítrekað og var bakvörðurinn í bölvuðum vandræðum varnarlega. Hann má samt eiga það að hann var mikilvægur uppspilspunktur sóknarlega og gerði vel þar.

Dómarinn og VAR 10/10

Slóvakíska dómarateymið var einfaldlega með allt í teskeið í dag. Michal Očenáš stýrði leiknum vel, lét lítið fyrir sér fara en greip inní á réttum augnablikum. Lítið um vafaatriði þannig en sá slóvakíski gerði flest rétt. Auðvitað ber að nefna einnig félagana í VAR herberginu sem dæmdu mark Flora af í fyrri hálfleik. Ákvörðunin var rétt ef við miðum við teikningarnar og því frábærlega gert hjá dómurum dagsins.

Eins og sjá má var um rangstöðu að ræða þegar Flora skoraði í fyrri hálfleik, og markið var réttilega dæmt af.UEFA

Stemningin og umgjörð

Það mátti heyra saumnál detta á Le Coq vellinum í Tallin þegar annað mark Víkinga kom. Völlurinn tekur tæplega 15.000 manns í sæti sem er ansi mikið og var mjög langt frá því að vera fullur völlur í dag. Það heyrðist meira í þeim eftir mark Flora og var fínasta stemmning. Þá voru örfáir Víkingar sem fylgdu liðinu út og reyndu þeir að láta í sér heyra. Flottur völlur og leit út fyrir að vera fínasta stemmning.

Hvað gerist næst?

Andstæðingar Víkinga í næstu umferð er andrroska liðið Santa Coloma sem við þekkjum vel. Breiðablik vann einvígi við liðið 5-1 árið 2022 og Valur vann 4-0 árið 2018. Ljóst er að Víkingur eru í dauðafæri að komast í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Fyrri leikur liðanna fer fram eftir slétta viku, 22. ágúst.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira