Íslenski boltinn

„Ég á ekki til orð Lárus Orri“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lárus Orri Sigurðsson og Albert Brynjar Ingason voru ekki sammála um eitt stórt atvik í leik Stjörnunnar og Breiðabliks.
Lárus Orri Sigurðsson og Albert Brynjar Ingason voru ekki sammála um eitt stórt atvik í leik Stjörnunnar og Breiðabliks. Stöð 2 Sport

Blikum þótti á sér brotið í leiknum á móti Stjörnunni en samkvæmt sérfræðingum Stúkunnar sluppu Blikarnir kannski bara vel frá þessum leik.

Stjarnan og Breiðablik gerðu 2-2 jafntefli í átjándu umferð Bestu deildar karla í fótbolta þar sem bæði liðin komust yfir í leiknum. Það var hart tekist á í leiknum og spennustigið var hátt.

„Þegar Blikar jöfnuðu þá vildu Stjörnumenn fá aukaspyrnu,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmaður Stúkunnar, og sýndi atvikið þegar Viktor Örn Margeirsson virtist brjóta á Örvari Eggertssyni fyrir framan vítateig Blika.

Blikar fóru í sókn og jöfnuðu metin í 1-1.

Þetta er bara brot, aukaspyrna og rautt spjald

„Dóri [Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks] talaði um það að þegar dómararnir myndu horfa aftur á leikinn þá yrði það óþægilegt fyrir þá því þeir hefðu gert of mikið af mistökum,“ sagði Albert Brynjar Ingason, sérfræðingur Stúkunnar.

„Ég held ef Dóri hefði horft aftur á leikinn þá hugsar hann að þeir hafi bara sloppið ágætlega miðað við dómana. Þetta er klárt brot. Viktor er ekki einu sinni að reyna við boltann þarna. Þetta er bara brot, aukaspyrna og rautt spjald. Svo fá þeir mark í andlitið þannig að Blikar eru að sleppa ágætlega frá þessum leik,“ sagði Albert.

Ekki sammála

Lárus Orri Sigurðsson, hinn sérfræðingur Stúkunnar í þættinum, var ekki alveg sammála kollega sínum og sagðist hafa horft á þetta mörgum sinnum án þess að vera fullviss um að það hafi verið snerting.  

„Ég á ekki til orð Lárus Orri,“ sagði Albert en auðvitað rífast þeir Albert og Lárus aðeins um þetta atvik en það er ekkert nýtt.

Það má horfa á umræðuna um þetta atvik hér fyrir neðan.

Klippa: Stúkan: Brot eða ekki brot í aðdraganda jöfnunarmarks Blika



Fleiri fréttir

Sjá meira


×