Lögmaður dýraverndunarsamtaka segir að á Íslandi sé engin leið til að láta lög um dýravelferð ná fram að ganga.
Það vakti mikla athygli þegar þýsk og svissnesk dýraverndunarsamtök gáfu út heimildarmynd um blóðmerahald á Íslandi árið 2021. Samtökin fylgdu síðan eftir fyrri rannsóknum sínum með annarri heimildarmynd sem kom út í nóvember í fyrra en í forgrunni myndarinnar er blóðmerahald á tveimur íslenskum býlum. Myndskeið af manni sparka í andlit hryssu sem er föst inni í blóðtökubás vakti athygli og óhug.
Katrín Oddsdóttir er lögmaður á Rétti.
„Við förum síðan, fyrir hönd þessara samtaka, með kæru til lögreglunnar um þetta dýraníð. Þetta er í janúar 2024 og lögreglan vísar síðan málinu til MAST.“
Í bréfi lögreglunnar til lögmanns segir að samkvæmt lögum skulu mál sem talin eru varða við lög um velferð dýra aðeins sæta rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Matvælastofnunar. Það kom síðan til kasta MAST að kanna hvort umrætt mál sé á rökum reist.

Þegar lögmaður óskaði síðan eftir því að fá að vita hvar málið væri statt þann 17. júlí fengust þau svör að stofnunin hefði skoðað myndböndin, með áherslu á þau atvik sem lýst er í kærunni. Ekki væri séð að þar kæmu fram refsiverð atvik og meint ill meðferð á hrossum ekki staðfest. Málinu sé lokið af hálfu MAST.

„Það sést þarna manneskja sparka í höfuðið á hryssu sem er bundin á bás til að beygja hana undir vilja sinn til þessað taka úr henni blóð. Ég veit ekki hversu mikla staðfestingu hægt er að fá fremur en akkúrat þetta myndskeið sýnir,“ segir Katrín.
MAST segir áhrif meints ofbeldis ekki mikil á hryssuna
Fréttastofa fékk þau svör frá DR. Sigríði Björnsdóttur, sérgreinadýralækni hrossa hjá MAST að hún hefði skoðað myndefnið margítrekað. Hún gæti ekki séð með öryggi, hvort maðurinn sparkar að hryssunni eða raunverulega í hana. Þá sagði hún að ef maðurinn snerti hryssuna á annað borð þá hafi það ekki verið fast og að henni virtist þetta ekki hafa mikil áhrif á hana, hún hafi brugðist aðeins við en ekki mikið, líkt og Sigríður komst að orði.
Ekki hægt að áfrýja því samtökin eru ekki málsaðilar
Dýraverndunarsamtökin geta ekki áfrýjað niðurstöðu MAST því þau eru ekki aðilar máls. Katrín segir svo virðist sem engin leið sé fyrir hendi til að dýravelferðarlög nái fram að ganga.
„Ef dýraverndunarsamtök mega ekki kæra til lögreglu og lögreglan getur ekki gert þetta sjálf og biður MAST um að hafa aðkomu að málinu og MAST sér einhvern veginn ekkert athugavert við þetta þá held ég að þessi lög séu einskis nýt og hross og önnur dýr algjörlega óvarin gagnvart illri meðferð,“ segir Katrín.
Dýravelferðarmál séu snúin því dýraverndunarsamtök eru ekki skilgreint sem „aðili máls.“
„Auðvitað getur hestur sem verður fyrir illri meðferð ekki kært sjálfur, hann hefur ekki mikla rödd þannig að ég spyr mig þá hver er þá eftir sem á að gæta hagsmuna þessara dýra? Við vitum öll að fólk á Íslandi, því var gjörsamlega misboðið þegar það kom út á sínum tíma.“