Hvassast verður í Öræfum þar sem búast má við vindhviðum í kringum 30 metra á sekúndu. Vegagerðin varar sömuleiðis við hvassviðri á Suðausturlandi eftir hádegi á mánudag sem geti verið varasamt ökutækjum sem taka á sig mikinn vind. Vegfarendur eru beðnir um að athuga aðstæður vel áður en lagt er af stað.
Lægð sunnan úr hafi
Að sögn veðurfræðings nálgast næsta lægð landið sunnan úr hafi eftir rólegheita veður um helgina. Ganga skil frá henni vestur yfir landið á mánudeginum.
„Þá gengur í norðaustan kalda eða strekking með rigningu víðast hvar, talsverð úrkoma á Austfjörðum síðdegis, en hvassviðri á Suðausturlandi. Þar er því ekki ráðlegt að vera á ferðinni á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind, en annað kvöld dregur úr vindi á þessum slóðum,” segir í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Vestantil á landinu verði þurrt fram eftir degi, en undir kvöld fari einnig að rigna þar. Hiti verði á bilinu 8 til 15 stig.