Innlent

Myndi fara stystu leið upp í sveit

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Það viðrar vel til gleðigöngu á morgun segir Haraldur veðurfræðingur.
Það viðrar vel til gleðigöngu á morgun segir Haraldur veðurfræðingur. Vísir

Hægviðri er í kortunum víða um landið um helgina. Haraldur Ólafsson veðurfræðingur segir að útlitið sé „bara þokkalegt.“ Hann myndi fara stystu leið upp í sveit um helgina.

„Ef að vindur er hægur, þá er nefnilega gott veður, þá er mikil veðurgleði,“ segir Haraldur.

Hann ætlar ekki að lofa miklu sólskini.

„Það verða skýjaflákar í öllum landshlutum, flákaský, og þau eru falleg líka, ekki bara sólin. Þau líta út eins og sængur og halda hitanum uppi á nóttunni,“ sagði hann í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Skúrir en ekki afgerandi rigningarveður

Haraldur segir erfitt að svara því hvar besta veðrið verði um helgina. „Það verða skúrir á víð og dreif um landið, og svona meira til fjalla og í innsveitum, en ekki afgerandi rigningarveður,“ segir hann. 

Svo geti líka verið sólarglennur inn til landsins.

Kemur sumarið loksins í ágúst?

Haraldur segir að engin stórviðri séu í kortunum, en heldur engin sérstök hlýindi og ekkert óskaplega mikið sólskin.

„Það er útlit fyrir að hann halli sér í norðaustanátt í vikunni, og þá verður frekar svalt fyrir norðan og einhver væta. Þá gæti séð til sólar sunnanlands,“ segir Haraldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×