Leikur HK og KR í Bestu deildinni er afar mikilvægur en aðeins eitt stig er á milli liðanna í 9. og 10. sæti deildarinnar.
Leikurinn átti að hefjast klukkan 19:15 en þegar verið var að setja upp annað markið í Kórnum lentu menn í miklum vandræðum og virðist sem markið sé hreinlega brotið.
Í lýsingu blaðamanns Vísis úr Kórnum kemur fram að markið hafi líklega brotnað í vikunni þegar skipt var um gervigras í Kórnum.

„Önnur stöngin var víst brotin við samskeytin en það hafði sennilega gerst í framkvæmdunum þegar skipt var um gervigras í vikunni. En er óvissa með hvenær leikurinn getur hafist en nú þegar er orðin 15 mínútna seinkun,“ skrifar Þorsteinn Hjálmsson Vísismaður sem er í Kórnum.
Skömmu síðar var komið með nýtt mark að utan inn í Kórinn og voru menn heillengi að brasa við að koma því fyrir. Eftir nokkra stund var tekin ákvörðun um að fresta leiknum og virðist sem nýja markið hafi ekki staðist kröfur.
Ekki er ljóst á þessari stundu hvenær leikurinn fer fram en ljóst er að viðgerðamenn þarf í Kórinn hið fyrsta.
Fréttin hefur verið uppfærð