Handbolti

Hver er þessi þýski Peters­son sem skaut Frakkana í kaf?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Renars Uscins hefur verið einn besti leikmaður Ólympíuleikanna í París.
Renars Uscins hefur verið einn besti leikmaður Ólympíuleikanna í París. getty/Tom Weller

Íslenskum handbolta barst góður liðsstyrkur á sínum tíma þegar Alexander Petersson fékk ríkisborgararétt og byrjaði að spila með íslenska landsliðinu. Ein helsta handboltaþjóð heims, Þýskaland, hefur nú einnig fengið góðan liðsauka frá Lettlandi.

Að öðrum ólöstuðum átti Renars Uscins stærstan þátt í því að Þýskaland vann Frakkland, 35-34, í átta liða úrslitum á Ólympíuleikunum í París í fyrradag. Hann skoraði fjórtán mörk, þar á meðal jöfnunarmarkið ótrúlega sem tryggði Þjóðverjum framlengingu og sigurmarkið þegar örfáar sekúndur voru til leiksloka.

Uscins, sem er hægri skytta líkt og Petersson, hefur farið hamförum í Frakklandi og er þriðji markahæsti leikmaður leikanna með 42 mörk. En hver er þessi nýjasta stjarna þýsks handbolta?

Af handboltaættum

Á meðan Petersson er frá Ríga, höfuðborg Lettlands, fæddist Uscins þann 22. apríl í bænum Cesis. Þar búa aðeins tæplega fimmtán þúsund manns.

Uscins er sonur Armands Uscins, fyrrverandi landsliðsmanns Lettlands í handbolta. Armands þjálfaði einnig lettneska landsliðið á árunum 2017-20.

Fjölskylda Uscins fluttist til Þýskalands 2005, þegar hann var þriggja ára. Hann hóf handboltaferilinn hjá Magdeburg og lék með yngri liðum félagsins.

Uscins fagnar marki fyrir Bergischer.getty/Marius Becker

Seinni hluta tímabilsins 2020-21 var Uscins lánaður til Bergischer þar sem hann lék með Arnóri Þór Gunnarssyni. Uscins skoraði 23 mörk í 22 leikjum með Bergischer í þýsku úrvalsdeildinni áður en hann sneri aftur til Magdeburg.

Þar voru tækifærin af skornum skammti enda Magdeburg einstaklega vel mannað í stöðu hægri skyttu með þá Ómar Inga Magnússon og Kay Smits.

Fann samastað í Hannover

Uscins lék aðeins tvo leiki fyrir aðallið Magdeburg og 2022 færði hann sig um set til Hannover-Burgdorf þar sem hann byrjaði að blómstra.

Hjá Hannover-Burgdorf fann Uscins fjölina sína.getty/Tom Weller

Tímabilið 2022-23 skoraði Uscins 64 mörk í 27 deildarleikjum með Hannover-Burgdorf sem endaði í 6. sæti. Á síðasta tímabili bætti hann um betur og skoraði 93 mörk í 27 deildarleikjum. Hannover-Burgdorf lenti í 7. sæti.

Vanur árangri með landsliðum

Meðfram þessum uppgangi með félagsliðum sínum var Uscins að gera góða, eða raunar frábæra, hluti með yngri landsliðum Þýskalands.

Hann er hluti af gríðarlega sterkum 2002-árgangi hjá Þýskalandi. Meðal annarra í honum eru markvörðurinn David Späth, sem er einnig kominn í A-landsliðið og átti stóran þátt í sigrinum á Frökkum með fjórtán vörðum skotum, og miðjumaðurinn Nils Lichtlein. Línumaðurinn Justus Fischer er svo ári yngri en þremenningarnir.

Uscins og félagar urðu Evrópumeistarar U-19 ára 2021 og svo heimsmeistarar U-21 ára í fyrra. Uscins var fyrirliði þýska liðsins á HM á síðasta ári og skoraði 31 mark á mótinu.

Fékk traustið hjá Alfreð

Frammistaða Uscins með yngri landsliðum Þýskalands fór ekki framhjá vökulu auga Alfreðs Gíslasonar. Hann valdi Uscins í A-landsliðið í fyrra og hann lék sinn fyrsta landsleik gegn Svíþjóð í apríl.

Elliði Snær Viðarsson reynir að stöðva Uscins á EM í janúar.getty/Federico Gambarini

Alfreð valdi Uscins einnig í þýska hópinn fyrir EM á heimavelli í byrjun þessa árs. Uscins lék ekki mikið framan af mótinu en tækifærunum fjölgaði eftir því sem leið á það. Hann átti til að mynda afar góða leik gegn heimsmeisturum Danmerkur í undanúrslitunum. Uscins skoraði þar fimm mörk í 26-29 tapi og gerði svo átta mörk í bronsleiknum þar sem Þýskaland tapaði fyrir Svíþjóð, 34-31.

Síðan á EM hefur Uscins verið aðalskytta þýska landsliðsins hægra megin og hann hefur heldur betur staðið undir trausti Alfreðs. Frammistaða hans á Ólympíuleikunum hefur verið stórkostleg og varnir andstæðinganna fá ekkert við hann ráðið.

Enginn hefur skorað fleiri mörk í leik í útsláttarkeppni á Ólympíuleikum og Uscins.getty/Marcus Brandt

Uscins er ekki mikill varnarmaður og Alfreð notar skyttuna Christoph Steinert í hægra horninu til að geta hvílt Uscins í vörninni. Hann á þá næga orku fyrir sóknina og hefur nýtt hana til hins ítrasta. Uscins er ekki sá hávaxnasti (1,89 metrar á hæð) en er með frábæra skottækni, snöggur að skjóta og gríðarlega áræðinn. Þá nýtir hann skotin sín vel en á Ólympíuleikunum er hann með 74 prósent skotnýtingu sem er frábært fyrir skyttu.

Þjóðverjar mæta Spánverjum í undanúrslitum Ólympíuleikanna í dag og ef Uscins heldur áfram að spila eins og hann hefur gert undanfarna daga getur þýska þjóðin leyft sér að dreyma um fyrsta úrslitaleikinn á Ólympíuleikunum í tuttugu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×