Innherji

Ingi­björg selur allan eignar­hlut sinn í LED Birtingum

Hörður Ægisson skrifar
Ingibjörg Pálmadóttir fjárfestir og Stefán Ragnar Guðjónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.
Ingibjörg Pálmadóttir fjárfestir og Stefán Ragnar Guðjónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.

Stefán Ragnar Guðjónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra verslunarsviðs Samkaupa, hefur gengið frá kaupum á um fjórðungshlut í eignarhaldsfélaginu Signo, móðurfélagi LED Birtinga og LED Skilta, eftir að Ingibjörg Pálmadóttir fjárfestir losaði um allan eignarhlut sinn í fyrirtækinu.

LED Birtingar eiga og reka um 50 auglýsingaskjái um land allt, en LED Skilti sérhæfa sig í sölu og þjónustu á LED skjám til þriðja aðila. Samanlögð velta félaganna var í kringum 500 milljónir á árinu 2023 og hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) um 170 milljónir.

Fjárfestingafélagið 365, sem er í eigu Ingibjargar, var fyrir söluna stærsti einstaki hluthafinn í Signo en félagið, sem hún og Jón Ásgeir Jóhannesson fara fyrir, var á sínum tíma meðal annars aðaleigandi Stöðvar 2, Vísis og Fréttablaðsins.

Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka var ráðgjafi í viðskiptunum.

LED-tæknin er bylting fyrir verslun á Íslandi eins og annars staðar.

Halldóra Brandsdóttir, framkvæmdastjóri LED Birtinga, segir að það sé mikill fengur að fá Stefán í hluthafahópinn en hann er núna framkvæmdastjóri Partylands, verslun sem sérhæfir sig í vörum fyrir veisluhald og opnaði í Holtagörðum síðastliðið haust, eftir að hafa áður starfað hjá Samkaupum í um 26 ár.

„Stefán hefur áratugareynslu af verslun og þjónustu, og þekkir þarfir verslunarinnar betur en flestir. Hans þekking og bakgrunnur munu gera okkur kleift að mæta þörfum viðskiptavina okkar enn betur en áður," segir Halldóra.

„LED-tæknin er bylting fyrir verslun á Íslandi eins og annars staðar,“ að sögn Stefáns.

Jón Skaftason er stjórnarformaður og einn stærri hluthafa Signo, móðurfélags LED Birtinga og LED Skilta.Sýn

„LED sem auglýsingamiðill gerir þér kleift að koma skilaboðum þínum áleiðis á snarpari, árangursríkari og umhverfisvænni máta en áður hefur þekkst. Þá er LED-væðing verslana rétt að hefjast og ég hlakka til að leggja mitt af mörkum við að innleiða þá byltingu á Íslandi."

Ásamt Stefáni eru aðrir eigendur Signo þau Halldóra og félög í eigu Jóns Skaftasonar, fjárfestis og fyrrverandi stjórnarformanns Sýnar og Kaldalóns, en hann bætir jafnframt við hlut sinn í viðskiptunum.

Stefán mun taka sæti í stjórn Signo ásamt Halldóru en Jón er sem fyrr stjórnarformaður félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×