Sport

Segja að það pissi allir í laugina á Ólympíu­leikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kate Douglass, Ólympíumeistari í 200 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í París, er ein af þeim sem svaraði spurningunni.
Kate Douglass, Ólympíumeistari í 200 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í París, er ein af þeim sem svaraði spurningunni. Getty/Luke Hales

Eftir alla umræðuna um að skolpið í París sé að gera Signu hættulega fyrir sundhluta þríþrautarinnar þá er eitt versta geymda leyndarmálið í sundinu að keppendur eru óhræddir við það að losa sig við þvag í sundlauginni.

Summer Sanders, fyrrum gullverðlaunahafi á Ólympíuleikunum, er á leikunum fyrir Yahoo Sports og hún spurði sundfólk út í það hvort þau pissi í Ólympíulaugina.

„Já ég geri það,“ sagði sundkonan Olivia Chambers.

„Ef þú segist ekki pissa í laugina þá ertu að ljúga, því allir gera það og þau gera meira af því en þú heldur,“ sagði sundkonan Kate Douglass. Douglass varð Ólympíumeistari í 200 metra bringusundi á leikunum í París og silfur í 200 metra fjórsundi.

Svo hinir sem ljúga

„Það eru þau sem segja sannleikann og svo hinir sem ljúga. Það pissa allir í laugina,“ sagði sundmaðurinn Bobby Finke. Finke vann gull í 1500 metra skriðsundi  á nýju heimsmeti og silfur í 800 metra skriðsundi í París en hann er líka tvöfaldur gullverðlaunahafi frá því á ÓL í Tókýó.

„Jú ég pissa í laugina. Það er enginn tími fyrir mig að fara upp úr lauginni og á klósettið ef ég þarf að pissa,“ sagði sundkonan Jessica Long sem hefur unnið sextán gullverðlaun á Ólympíumóti fatlaðra í gegnum tíðina.

Sem betur fer er klórið í lauginni að gera sitt og bakteríurnar eiga því ekki möguleika í lauginni ólíkt því hvernig þær fá að valsa um í ánni Signu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×