
Erik Nelson ásamt vélamanninum John Harding flaug frá Kirkwall á Orkneyjum og lenti sjóflugvél sinni „New Orleans" við Höfn í Hornafirði klukkan 18:37 eftir um átta klukkustunda flug. Daginn eftir tókst annari flugvél úr leiðangrinum, sem bar nafnið „Chicago", einnig að ná til Hornafjarðar. Þann 5. ágúst var þeim báðum flogið til Reykjavíkur og tók flugið frá Höfn um fimm klukkustundir.
Þetta telst einn merkasti atburður íslenskrar flugsögu. Fimm árum áður hafði flugvél í fyrsta sinn verið flogið á Íslandi, þann 3. september 1919, þegar flugvél af gerðinni Avro 504K hóf sig til flugs úr Vatnsmýrinni í Reykjavík. Sú flugvél hafði verið flutt til landsins með skipi á vegum Flugfélags Íslands, þess fyrsta sem bar það nafn, en var árið eftir send úr landi þegar ekki fékkst stuðningur til frekari tilrauna með flugstarfsemi.

Flugsafn Íslands á Akureyri minnist hnattflugsins og fyrsta flugsins til Íslands með ýmsum hætti. Þannig er sérstakur viðburður áformaður á safninu í næstu viku þar sem tímamótanna verður minnst.
Þegar flugvélarnar áðu í Reykjavík í ágústmánuði 1924 var skipt um loftskrúfur þeirra beggja. Skrúfurnar varðveittust báðar hérlendis og er önnur í vörslu Borgarsögusafns Reykjavíkur en hin hjá Þjóðminjasafni Íslands.

Flugsafn Íslands hefur núna fengið að láni frá Þjóðminjasafninu aðra loftskrúfuna og verður hún til sýnis á safninu fram á næsta vor.
Samantekt um hnattflugið sem Þorkell Ágúst Jóhannsson, formaður Arnarins, Hollvinafélags Flugsafns Íslands, ritaði má lesa hér á heimasíðu Flugsafnsins.

Í grein Þorkels kemur fram að í Reykjavík hafi múgur og margmenni beðið komu flugvélanna með borgarstjórann Knud Zimsen í broddi fylkingar.
„Var talað um að mannfjöldinn jafnaðist á við konungskomu enda um stórviðburð að ræða."

Ljósmyndasafn Reykjavíkur minntist aldarafmælis þessara tímamóta í samgöngusögu Íslands fyrr á árinu með fyrirlestri Leifs Reynissonar sagnfræðings. Leifur sagði þar að þessum viðburði hefði lítið verið hampað í sögubókum en full ástæða væri til að draga þetta fram nú þegar hundrað ár væru liðin.
„Árið 1924 var þetta stórviðburður. Því að það var flogið um haf langa vegalengd. Og við vorum hluti af heimsviðburði,” sagði Leifur í frétt Stöðvar 2, sem sjá má hér: