Króatar byrjuðu leikinn betur og voru með forystuna fyrst um sinn. En eftir því sem líða fór á fyrri hálfleikinn unnu Svíar sig inn, jöfnuðu þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og fóru svo með þriggja marka forystu inn í búningsherbergi.
Upphaf seinni hálfleiks var algjört afhroð hjá Króatíu, Svíarnir skoruðu fyrstu fimm mörkin og héldu áfram að bæta jafnt og þétt við forystuna sína þar til leikurinn var flautaður af og ellefu marka Svíasigur niðurstaðan.
Svíþjóð var án eins síns besta leikmann því Jim Gottfridsson fékk að líta hið sjaldséða bláa spjald og tók út leikbann.
Svíþjóð er því nú með fjögur stig í A-riðlinum, líkt og Þýskaland, Spánn, Slóvenía og Króatía. Neðstir eru Japanir með núll stig.
Fjögur efstu liðin fara upp úr riðlinum. Króatía og Svíþjóð hafa leikið einum leik fleiri en hin liðin. Næst spilar Króatía svo við Spán og Svíþjóð mætir Japan.