Sport

Reynir við 72 ára gamalt af­rek Emils Zátopek

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Augun verða á Sifan Hassan í frjálsíþróttakeppni Ólympíuleikanna í París.
Augun verða á Sifan Hassan í frjálsíþróttakeppni Ólympíuleikanna í París. Getty/Rene Nijhuis

Stórstjarna langhlaupanna ætlar að reyna við sögulega þrennu á Ólympíuleikunum í París. Hér á ferðinni hollenska hlaupakonan Sifan Hassan sem er sigurstrangleg í öllum greinunum þremur.

Margir hafa velt því fyrir sér í hversu mörgum greinum Hassan ætlar að keppa á Ólympíuleikunum.

Það kom til greina hjá henni að keppa í fjórum greinum en Hassan ákvað að sleppa 1500 metra hlaupinu. Hún mun hins vegar keppa í 5000 metra hlaupi, 10.000 metra hlaupi og maraþonhlaupi á leikunum.

Hassan er tvöfaldur Ólympíumeistari síðan í Tókýó þegar hún vann bæði 5000 metra og 10.000 metra hlaupið.

Hefði hún keppt í 1500 metra hlaupinu þá hefði hún keppt á fjórum dögum í röð og sá síðasti af þeim hefði innihaldið maraþonhlaupið.

Samtals mun Hassan nú hlaupa 62 kílómetra á leikunum á níu dögum. Það eru undanrásir í 5000 metra hlaupinu og það hefðu einnig verið undanrásir í 1500 metra hlaupinu.

Fyrst á dagskrá eru undanrásir í 5000 metra hlaupinu í dag en úrslitin eru síðan 5. ágúst. 10.000 þúsund metra hlaupið er 9. ágúst og maraþonhlaupið síðan 11. ágúst.

Aðeins einn íþróttamaður í sögunni hefur náð að vinna gull í 5000 metra, 10.000 metra og maraþonhlaupi á sömu Ólympíuleikum.

Tékkinn Emil Zátopek náði þessu á Ólympíuleikunum í Helsinki árið 1952 en síðan eru liðin 72 ár.

Hassan talar um það að hafa fengið innblástur af afreki Zátopek þegar hún tók ákvörðun um að keppa í þessum þremur greinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×