Sport

Grjóthörð brasilísk fimleikakona vekur at­hygli: Datt, fékk skurð og glóðar­auga en vann brons

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eins og sjá má var Flávia Saraiva ansi illa útileikin eftir að hafa dottið af tvíslánni.
Eins og sjá má var Flávia Saraiva ansi illa útileikin eftir að hafa dottið af tvíslánni. getty/Tim Clayton

Brasilíska fimleikakonan Flávia Saraiva er greinilega algjör nagli, allavega ef marka má frammistöðu hennar í liðakeppninni á Ólympíuleikunum í París í gær.

Brassar urðu í 3. sæti í liðakeppninni og unnu þar með sín fyrstu verðlaun í þessum flokki á Ólympíuleikunum.

Leiðin að bronsinu var þó ekki greið, allavega ekki fyrir Saraivu. Hún datt nefnilega af tvíslá í upphitun og lenti á andlitinu.

Þrátt fyrir að fá glóðarauga og skurð fyrir ofan vinstra augað sýndi Saraiva mikla keppnishörku og kláraði allar fjórar æfingarnar með glæsibrag.

Hún fékk meðal annars 13.666 í einkunn á tvíslánni, skömmu eftir að hafa dottið af henni í upphituninni.

Saraiva er þrautreynd fimleikakona og er á sínum þriðju Ólympíuleikum. Og hún er nú búin að bæta Ólympíubronsi í safnið sitt, þrátt fyrir hrakfarirnar í upphituninni í gær. Fall er nefnilega stundum fararheill eins og oft er sagt.

Brasilía fékk samtals 164.263 í einkunn í liðakeppninni í gær. Auk Saraviu skipuðu Rebeca Andrede, Jade Barbosa, Lorrane Oliveira og Júlia Soares brasilíska bronsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×