Lífið

Hélt á lafandi fætinum í lófanum

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Erla fótbrotnaði illa þegar hún var að ferja reiðhjól niður af göngubrúnni yfir Krossá, og datt niður af brúnni.
Erla fótbrotnaði illa þegar hún var að ferja reiðhjól niður af göngubrúnni yfir Krossá, og datt niður af brúnni. Erla Sigurlaug

Líf Erlu Sigurlaugar Sigurðardóttur tók stakkaskiptum á svipstundu þegar hún datt niður af brúnni yfir Krossá í Þórsmörk. Hún brotnaði alvarlega á hægri fæti, þar sem bæði fótleggsbeinin, sköflungur og dálkur fóru í sundur, öll liðbönd slitnuðu, og skemmdir urðu á brjóski. Hún á langa leið að fullum bata, en hlakkar til endurhæfingarinnar, þótt hún lofi hvorki miklum húmor né hressleika á leiðinni.

Erla Sigurlaug sagði sögu sína í færslu á Facebook í gær. „Það er skrítið að skrifa þessa slysasögu núna tveimur vikum eftir að þetta gerðist, ég veit ekki alveg tilganginn nema koma þessu á blað og segja ykkur hvað gerðist og það sé núna í lagi með mig, þótt ég hverfi af vettvangi í þónokkuð langan tíma ... Ég þarf ekki vorkunn, fóturinn er fastur á og ég fékk frábæra þjónustu,“ segir Erla.

Fóturinn er fastur á, og Erla segist hafa fengið frábæra þjónustu.Erla Sigurlaug

Voru að flytja reiðhjól yfir göngubrú

Erla og Krummi sonur hennar höfðu verið á ferðalagi með hjólin sín og hjólað um Þórsmörk í fjóra daga. „Þórsmörk er uppáhaldsstaðurinn okkar. Að hjóla með yndislega unglingsbarninu mínu var geggjað,“ segir Erla.

Slysið verður þegar hún og Krummi voru að flytja hjólin yfir göngubrú sem er yfir Krossá. Erla segir að þetta hafi þau gert alla dagana og þau hafi verið komin með ansi góða aðferð sem virkaði.

„Græna brúin var þó mjög trikkí, rafmagnsfjallahjólin eru þung og brúin er ekki gerð til að leiða hjólin upp á brúnna, hún er há og stiginn upp er alveg beinn, brattur og mjór. Brúin sjálf er fín, breið, handrið, hægt að reiða hjólið yfir. Og svo er það niður hinum megin, einn lætur hjólið síga varlega og hinn tekur á móti niðri,“ segir Erla.

Erla flæktist í hjólinu og féll niður af brúnni. Brúin er í um 2,3 metra hæð.Erla Sigurlaug

Svo þegar ferðalangur á staðnum bauðst til að aðstoða þau við verkefnið á síðasta deginum, þáðu þau það með þökkum, enda eru rafmagnshjólin um 25 kíló hvort fyrir sig. Þá hafi systemið þeirra við flutningana hins vegar farið úr skorðum.

Armbandið flæktist í bremsunni

„Sjálfboðaliðinn stór og sterkur og tók á móti hjólinu af brúni, en þarna gerist það að ég einhvern veginn flæktist í afturbremsunni á hjólinu,“ segir Erla. Hún hafi reynt að losa sig, en verið föst. Allt hafi gerst hratt, og nibban á afturbremsunni verið ennþá föst í hanskanum þegar hjólið var dregið niður. Þá togaðist Erla með.

Síðar á spítalanum sá hún svo að tónleikaarmband sem hún hafði fengið á laugardagskvöldinu væri ennþá á hendinni. Þá fattaði hún að það var ekki mjúkur hanskinn sem hafði flækst í hjólinu, heldur armbandið. „Þessi armbönd eru ódrepanleg og slitna ekki sama hvað,“ segir Erla.

Erla og dóttir hennar bara brattar.Erla Sigurlaug

„Þarna stóð ég á brúarendanum, með hendina beina á undan mér eins og súperwoman á leið í flug. Það var eins og mér hefði verið ýtt. Ég var búin að missa jafnvægið og ekkert til að grípa í.“

Hún segir að þá hafi tíminn stoppað. Þarna vissi hún hvað væri að fara gerast, og margt hafi farið í gegnum hugann á þessari stundu, aðallega hvernig hún ætlaði að lenda. Hún ákvað að gera allt sem hægt væri til að lenda ekki á hausnum. Niðurstaðan var að lenda á fótunum, sem hún og gerði.

Erla eyðir dögum sínum á miðhæðinni í gamla þriggja hæða stigahúsinu sínu. Hún sleppur við að setja í þvottavélina í kjallaranum næstu misserin.Erla Sigurlaug

Hélt á fætinum sem lafði

Þegar hún lenti fann hún hvernig fóturinn brotnaði strax við fallið. Hún greip um fótinn og fór í keng. „Sársaukinn var óbærilegur og ég hélt á fætinum í lófanum á mér, hann bara lafði þarna. Ég hélt ég væri að deyja og síðar að ég væri dáin, á ketamín ofskynjunartrippinu,“ segir Erla.

Erla segir að hún hafi þurft að öskra svo hátt að henni hafi enn verið illt í röddinni og hálsinum þar til í gær, en slysið varð fyrir tveimur vikum síðan.

Burstuðu bein og vöðva með tannbursta

Sjúkralið frá Hvolsvelli var svo ferjað inn af björgunarsveitinni og gerði það sem hægt var. Erla fékk ketamín, og er upplifunin af því yfirleitt góð, en hjá henni var hún annars eðlis.

„Ég hvarf inn í ofskynjunarheim einhverra óþægilegustu myrkustu tilfinninga og vanlíðunar og barðist þar í þröngum rörheimi þar sem heilinn á mér hafði verið yfirtekinn,“ segir hún. Henni hafi liðið eins og hún væri að hverfa inn í dauðann.

Erla segir að hún og Krummi sonur hennar hafi átt þrjá frábæra hjóladaga saman í Þórsmörk. Erla er fyrrverandi íslandsmeistari í hjólreiðum.Erla Sigurlaug

Seinna komst Erla að því að á meðan ketamínvímunni stóð, að viðbragðsaðilar hefðu strax hafist handa við að hreinsa sárið, sem var fullt af sandi og möl. „Mér var sagt að á meðan ég var í ketamínvibbaheiminum þá tóku þau upp nýja tannbursta og burstuðu bein og vöðva.“

Tvær aðgerðir til að skrúfa saman löppina

Erla var flutt með þyrlu á Landspítalann og fór rakleiðis í rúmlega fjögurra klukkustunda aðgerð, en fór svo í aðra tveggja klukkustunda aðgerð þremur dögum síðar.

Bæði sköflungsbein hennar höfðu farið í sundur við ökklann, og minna beinið var vel tætt. Öll liðbönd slitnuðu og þá voru einnig skemmdir á brjóski, sem endurnýjast ekki.

Löppin eftir aðgerðina á spítalanum.Erla Sigurlaug

„Fyrsta aðgerðin snérist víst meira um að finna beinflísar og bita og pússla saman ásamt því að hreinsa sárið sem var fullt af sandi og möl, orðið vel límt vegna tímans sem leið, þrátt fyrir að sjúkraliðið frá Hvolsvelli hafi víst gert sitt besta til að hreinsa sárið strax á vettvangi,“ segir Erla.

Í seinni aðgerðinni var svo skipt um skrúfur og plötu, en sérfræðingarnir vildu laga þetta að eins mikilli fullkomnun og hægt væri.

Hún segir að allt starfsfólk Landspítalans í Fossvogi hafi verið yfir væntingum og til fyrirmyndar, og kann þeim bestu þakkir fyrir.

Vantar nýja vinnu sem hægt er að sinna með löppina út í loftið

„Sérfræðilæknirinn minn, bæklunarskurðlæknasnillingameistarinn, fór á annað hnéð til að horfa í augun á mér þegar ég lá í sjúkrarúminu til að geta horft beint í augun á mér þegar hann sagði mér að þetta væri alvarlegt,“ segir Erla.

Hún stígur í fótinn í allra fyrsta lagi eftir þrjá mánuði, en næsta sumar er ágætt markmið til að ná ágætum bata segir læknirinn.

Erla í makindum sínum heima hjá sér í Hafnarfirði.Erla Sigurlaug

Erla Sigurlaug hefur verið sjálfstætt starfandi verktaki undanfarin ár, og aðallega fengist við útivist af einhverju tagi. Hún hefur verið ökuleiðsögukona, hjólreiðaþjálfari, fararstjóri erlendis, og athafnastjóri giftinga úti í náttúrunni.

„Verktakar eru alls ekki vel gripnir í samfélagskerfinu og mínar tryggingar eru of basic fyrir svona tráma,“ segir Erla. Hún sé því atvinnulaus og vanti núna vinnu sem „hægt er að vinna með heilanum á mér.“

„Ég kann alls konar. Ég er með þrjár háskólagráður þótt ég vinni sem ökuleiðsögumaður,“ segir Erla. Ekkert system grípi hana þar sem hún er verktaki, og hún leiti því að nýrri vinnu sem hægt er að sinna með löppina út í loftið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×