Íslenski boltinn

Sjáðu Viðar Örn skora loksins fyrir KA og Finn Tómas bjarga KR í blá­lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viðar Örn Kjartansson fagnar markinu sínu í gær. Hann var búinn að spila í 529 mínútur án þess að skora.
Viðar Örn Kjartansson fagnar markinu sínu í gær. Hann var búinn að spila í 529 mínútur án þess að skora. Stöð 2 Sport

KR og KA gerðu 2-2 jafntefli í Bestu deild karla í fótbolta í gærkvöldi. Það var dramatík í lok leiks eftir að liðin höfðu eignað sér sitt hvorn hálfleikinn. Nú má sjá mörkin úr leiknum hér á Vísi.

KR-ingar voru 1-0 yfir í hálfleik og gátu skorað fleiri mörk í fyrri hálfleiknum. KA-menn tóku öll völd í þeim síðari og virtust vera þá að landa öflugum útisigri þegar KR jafnaði á fimmtu mínútu í uppbótatíma.

Benoný Breki Andrésson kom KR í 1-0 á 19. mínútu eftir undirbúning Luke Rae en Daníel Hafsteinsson jafnaði metin á 58. mínútu eftir sendingu frá Harley Bryn Willard.

Þrettán mínútum síðar fögnuðu KA-menn svo gríðarlega þegar Viðar Örn Kjartansson kom þeim yfir í 2-1 eftir stoðsendingu frá Hallgrími Mar Steingrímssyni.

Þetta var fyrsta mark Viðars Arnar fyrir KA í Bestu deildinni en hann var að leika sinn fimmtánda deildarleik í KA-búningnum í gær.

Finnur Tómas Pálmason bjargaði hins vegar stigi fyrir KR á fimmtu mínútu í uppbótatíma þegar hann skallaði inn skallasendingu frá Aroni Sigurðarsyni eftir aukaspyrnu frá Jóhannesi Kristni Bjarnasyni.

Hér fyrir neðan má sjá öll mörkin úr leiknum.

Klippa: Mörkin úr leik KR og KA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×