Veður

Enn hætta á vatna­vöxtum en dregur úr rigningunni

Kjartan Kjartansson og Telma Tómasson skrifa
Frá Þórsmörk. Myndin er úr safni.
Frá Þórsmörk. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Dregið hefur úr rigningu á sunnanverðu landinu en enn má búast við vatnavöxtum í Þórsmörk og nágrenni vegna hennar. Vatnsmagn jókst í ám á svæðinu í nótt samkvæmt mælitækjum og gæti haldið áfram í dag á þeim svæðum sem Veðurstofan telur ástæðu til að fylgjast með á Suðurlandi, Suðausturlandi og miðhálendinu.

Rign hefur á sunnanverðu landinu frá því síðdegis í gær. Enn er úrkomuspá á svæðinu en útlit fyrir að stytti upp þegar líður á daginn, ef spákort reynast rétt. Skilaboð til ferðamanna eru að fylgjast grannt með og fara varlega.

Lægðin sem olli úrkominni er nú stödd skammt suðvestur af landinu og sendir áfram rigningu af og til yfir landið sunnanvert í dag, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Á höfuðborgarsvæðinu er spáð sunnan 5-10 metrum á sekúndu í dag með stöku skúrum en lægja á seinni patinn.

Í öðrum landshlutum ætti að rofa til þegar líður á daginn og mögulega sjást til sólar. Enn er þó möguleiki á stöku skúrum.

Vindur á að ganga niður víða síðdegis og hlýjast verður norðaustanlands þar sem hitinn gæti náð allt að tuttugu stigum.

Hægri vestlægri átt er spáð á landinu á morgun með víða skýjuðu og smávægis vætu á víð og dreif. Besta veðrinu er spáð á suðaustanverðu landinu, þurru og björtu með hita allt að átján stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×