Körfubolti

Öruggur fyrsti sigur ís­lensku strákanna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Íslenska drengjalandsliðið skipað leikmönnum 18 ára og yngri vann öruggan sigur í dag.
Íslenska drengjalandsliðið skipað leikmönnum 18 ára og yngri vann öruggan sigur í dag. KKÍ

Íslenska drengjalandsliðið í körfubolta, skipað leikmönnum 18 ára og yndri, vann öruggan 19 stiga sigur er liðið mætti Eistlandi í riðlakeppni Eurobasket B í dag, 74-55.

Íslenska liðið mátti þola 24 stiga tap gegn Sviss í fyrsta leik riðlakeppninnar í gær og á sama tíma unnu Eistar öruggan sigur gegn Kósovó.

Íslensku strákarnir létu tapið í gær þó ekki á sig fá og tóku örugga forystu strax í fyrsta leikhluta. Eistar voru einu sinni yfir í leiknum, í stöðunni 4-3, en fyrir utan það hafði íslenska liðið öll tök á vellinum.

Ísland hafði 13 stiga forskot eftir fyrsta leikhluta og munurinn var kominn upp í 20 stig þegar flautað var til hálfleiks, staðan 39-19.

Eistneska liðið náði að minnka muninn niður í 15 stig í þriðja leikhluta, en forysta íslenska liðsins var aldrei í hættu og niðurstaðan varð 19 stiga sigur, 74-55.

Íslensku strákarnir eru því jafnir Eistum á toppi B-riðils með þrjú stig eftir tvo leiki, en hin fjögur liðin í riðlinum eiga þó öll leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×