Handbolti

Vé­steinn hitti Þóri ó­vænt í Ólympíu­þorpinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Selfyssingarnir Vésteinn Hafsteinsson og Þórir Hergeirsson hittust fyrir tilviljun í Ólympíuþorpinu í gær.
Selfyssingarnir Vésteinn Hafsteinsson og Þórir Hergeirsson hittust fyrir tilviljun í Ólympíuþorpinu í gær. @isiiceland

Það eru aðeins tveir dagar í setningarhátíð Ólympíuleikanna í París og íþróttafólk þjóðanna streymir að til Frakkland. Hluti af starfsfólki ÍSÍ er nú mætt í Ólympíuþorpið og stendur undirbúningur sem hæst.

Þau sem voru komin til Parísar í gær til að undirbúa aðstöðu íslenska íþróttafólksins á leikunum voru Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ og aðalfararstjóri, Brynja Guðjónsdóttir, fararstjóri og sérfræðingur á Afrekssviði ÍSÍ og svo Halla Kjartansdóttir, sem sér um miðamál og gesti ÍSÍ á Ólympíuleikunum.

Deila húsi með frændum okkar

Í Ólympíuþorpinu er verið að setja upp góða aðstöðu fyrir keppendur og teymi með helsta búnaði ásamt því að hengja upp merkingar og gera vistarverurnar notalegar. Íslenski hópurinn deilir húsnæði með frændum okkar af Norðurlöndunum, Dönum, Svíum og Norðmönnum og mun án efa myndast skemmtileg stemning með hópunum.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands segir frá þessu sem og óvæntum fundi tveggja Selfyssinga í Ólympíuþorpinu.

Svo skemmtilega vildi til að vinirnir Vésteinn og Þórir Hergeirsson, þjálfari kvennaliðs Noregs í handknattleik, hittust fyrir tilviljun fyrir utan Ólympíuþorpið og var mynd tekin af þeim við það tilefni.

Hafa báðir þjálfað gullverðlaunahafa á ÓL

Þórir hefur stýrt norska landsliðinu til þrenna verðlauna á Ólympíuleikum þar af vann liðið gull á leiknum í London 2012. Lærisveinar Vésteins, Daniel Ståhl og Simon Pettersson, unnu gull og silfur í kringlukasti á síðustu Ólympíuleikum.

Vésteinn er fæddur í desember 1960 á Selfossi en Þórir er fæddur í apríl 1964 á Selfossi. Báðir hafa þeir verið í hópi bestu þjálfara Íslendinga í langan tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×