Handbolti

HK endur­heimtir tvo leik­menn sem urðu Ís­lands­meistarar með liðinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Leó Snær Pétursson og Andri Þór Helgason eru gengnir í raðir HK.
Leó Snær Pétursson og Andri Þór Helgason eru gengnir í raðir HK. HK

HK-ingar hafa samið við hornamennina Leó Snær Pétursson og Andra Þór Helgason um að leika með liðinu á komandi tímabili í Olís-deild karla í handbolta.

Leó og Andri koma báðir til HK frá Aftureldingu þar sem þeir léku á síðasta tímabili og fóru alla leið í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn, en töpuðu þar gegn FH.

Leó lék áður með Stjörnunni, en Andri með Gróttu.

Leó og Andri eiga það þó báðir sameiginlegt að hafa áður leikið með HK. Þeir voru báðir hluti af liðinu sem varð Íslandsmeistari í handbolta árið 2012. Það ár lék Andri þrjá deildarleiki fyrir HK og Leó Snær kom við sögu í 21 leik þar sem hann skoraði 30 mörk.

HK-ingar, sem voru nýliðar í efstu deild á síðasta tímabili, héldu sér uppi í deild þeirra bestu og munu þeir Leó og Andri fá það verkefni að hjálpa liðinu að taka næsta skref.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×