Marsibil G. Kristjánsdóttir, listamaður og leikhússstjóri, á heima í elsta steinhúsinu á Þingeyri, Grásteini, og er með átta hundruð fermetra garð sem hefur að geyma mörg tré.
Hún tók umrætt myndband og birti það á Facebook í kjölfarið. Það má sjá hér fyrir neðan.
„Í gær var alveg svaka veður. Ég var að horfa á hengirúmið, og það voru svo mikil læti að ég varð hrædd um að það myndi rifna eða eitthvað,“ segir Marsibil í samtali við fréttastofu.
Þannig ég hugsaði með mér að ég myndi ná í það. En ég ákvað að taka myndband því veðrið var svo svakalegt. Ég var í skjóli við húsið og tók upp myndavélina og tók upp myndband og þá féll þessi grein bara beint fyrir framan mig.“
Í kjölfarið ákvað hún að líklega best að fara aftur inn, sem hún gerði. „Ég settist inn í stofu og þá heyri ég rosa dynk. Þá kom önnur grein ofan á þakið beint fyrir ofan mig,“ segir hún.

„Það er bara logn núna,“ segir Marsibil. Hún hefur ekki náð að kíkja almennilega á þakið, en henni sýnist að það hafi sloppið við skemmdir fyrir utan mögulega smá beyglur.
Leikhúsgestir fuku
Marsibil rekur Kómedíuleikhúsið í Haukadal í Dýrafirði og í gærkvöldi voru þau með sýningu.
Gestir sem komu og gistu á Þingeyri lentu illa í óveðrinu.
„Maðurinn minn horfði á tvo af þessum gestum fjúka í gær. Þannig þeir komu lemstraðir með plástra í leikhúsið,“ segir hún, en bætir við að þeir hafi sloppið vel þrátt fyrir nokkra plástra og mar.
Líkt og áður segir voru tré víða um Þingeyri sem lentu illa í því. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem Marsibil tók af bænum.



