Atvik eru nokkuð á reiki en samkvæmt umfjöllun erlendra miðla segir Tori Toway, 28 ára, að tilraunin hafi verið örvæntingafullt viðbragð í kjölfar heimilisofbeldis.
Towey, sem fluttist til Sameinuðu arabísku furstadæmana árið 2023 til að starfa sem flugþjónn, virðist hafa orðið fyrir ofbeldisfullri árás en var í kjölfarið flutt á lögreglustöð þar sem hún var ákærð fyrir tilraun til sjálfsvígs og fyrir að hafa neytt áfengis.

Mary Lou McDonald, leiðtogi Sinn Féin, greindi frá málinu á írska þinginu í gær og sagði að Towey hefði verið meinað að yfirgefa landið. Forsætisráðherrann Simon Harris sagðist ekki hafa verið meðvitaður um málið en hann myndi tafarlaust grípa til aðgerða.
Utanríkisráðuneytið sagði í samtali við Sky News að málið hefði komið þar inn á borð og verið væri að veita aðstoð vegna þess.
Radha Stirling, framkvæmdastjóri Detained in Dubai, segir samtökin veita fjölskyldunni stuðning og hafa kallað eftir því að málið verði látið niður falla og Towey fái að snúa heim til Írlands. Um sé að ræða harmleik og Towey sé heppin að vera enn á lífi.
Þá sakar Stirling stjórnvöld í Sameinuðu arabísku furstadæmunum um tvískinnung en á sama tíma og verið sé að auglýsa að áfengisneysla sé ekki lengur ólögleg sé enn verið að ákæra fólk fyrir að fá sér í glas.