Erna Sóley þurfti að bíða í nagandi óvissu um það hvort að hún fengi sæti á leikunum, eftir að hafa verið í 34. sæti síðasta heimslistans fyrir Ólympíuleikana í París, tveimur sætum frá öruggum farseðli á leikana. En nú er orðið ljóst að hún fær sæti á leikunum og verður fulltrúi íslenskra frjálsíþrótta, á stærsta sviði íþróttanna.
„Ég var án djóks skoppandi. Ég var svo ánægð, svo glöð, og það skein bara af mér hvað ég var ótrúlega ánægð,“ segir Erna Sóley, sem er 24 ára gömul, og bætir við:
„Ég er eiginlega ekki búin að átta mig á þessu. Ég er að reyna að melta þetta núna. Þetta kom smá óvænt. Ég vissi ekkert almennilega að ég væri að komast inn. Þetta eru ótrúlega góðar fréttir.“
Erna Sóley hefur ekki áður keppt á Ólympíuleikunum en hún verður fimmti keppandinn sem kemst inn á leikana fyrir Íslands hönd, en þeir hefjast eftir þrjár vikur í París í Frakklandi, 26. júlí.
Anton Sveinn McKee, sundmaður, Guðlaug Edda Hannesdóttir, þríþrautarkona, Hákon Þór Svavarsson, skotíþróttamaður og Snæfríður Sól Jórunnardóttir, sundkona, hafa öll tryggt sér þátttökurétt á leikunum.