Fótbolti

Pal­hinha á leið til Bayern á met­fé

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mun spila fyrir Bayern á næstu leiktíð.
Mun spila fyrir Bayern á næstu leiktíð. Hesham Elsherif/Getty Images

Bayern München gerði sitt besta til að festa kaup á portúgalska miðjumanninn João Palhinha á síðustu leiktíð. Loksins hefur þýska knattspyrnufélagið haft erindi sem erfiði en Fulham hefur samþykkt tilboð sem gerir hann að dýrustu sölu í sögu félagsins.

Hinn 28 ára gamli Palhinha er sem stendur staddur í Þýskalandi þar sem Evrópumót karla fer fram. Hann er hluti af ógnarsterku liði Portúgals sem mætir Frakklandi í 8-liða úrslitum. Það má því reikna með að vistaskiptin verði ekki staðfest fyrr en Portúgal er úr leik, sama hvenær það verður.

Sky Sports greinir frá því að þessi sterki miðjumaður muni kosta Bayern um 47,4 milljónir punda þegar uppi er staðið. Gerir það rúma 8,3 milljarða íslenskra króna. Um er að ræða ágætis ávöxtun fyrir Fulham sem keypti leikmanninn frá Sporting í Portúgal fyrir sléttar 20 milljónir punda.

Töluverðar breytingar hafa orðið á liði Bayern síðan tímabilinu lauk þar sem Vincent Kompany er tekinn við sem þjálfari af Thomas Tuchel. Þá má reikna með frekari breytingum á leikmannahópi félagsins.

Þá er þetta annað árið í röð sem Fulham missir það sem talið er þeirra sterkasti maður á þeim tímapunkti en síðasta sumar seldi félagið framherjann Aleksandar Mitrović til Sádi-Arabíu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×