Körfubolti

Klay Thompson að semja við Dallas Mavericks

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Klay Thompson fer í nýjan búning á næsta NBA tímabili.
Klay Thompson fer í nýjan búning á næsta NBA tímabili. Getty/Alex Goodlett

Bandaríski ofurskúbbarinn Adrian Wojnarowski segir frá því í kvöld að Klay Thompson ætli að semja við Dallas Mavericks í NBA deildinni í körfubolta.

Samkvæmt frétt Wojnarowski á ESPN þá mun Klay skrifa undir þriggja ára samning sem skilar honum fimmtíu milljónum Bandaríkjadala í laun.

Það var orðið ljóst að Thompson yrði ekki áfram með Golden State Warriors þar sem hann hefur spilað í þrettán ár. Félagsskipti Thompson kalla á fleiri breytingar en meðal annars fer Dallas leikmaðurinn Josh Green til Charlotte.

Thompson fékk fjögurra ára tilboð fyrir meiri pening en valdi Mavericks til að reyna að vinna sinn fimmta titil. Það hjálpar líka að liðið spilar í Texas fylki sem er hagstætt vegna skattamála.

Hinn 34 ára gamli Thompson er einn besti skotmaður sögunnar og myndaði frábært tvíeyki með Steph Curry í öll þessi ár. Þeir hafa unnið fjóra NBA-titla saman.

Thompson hefur aftur á móti verið mikið meiddur á síðustu tímabilum og hefur gefið talsvert eftir. Golden State vildi ekki veðja á hann áfram en hann sóttist eftir risasamningi.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×