Innlent

Enn glóð í gígnum og unnið að hraunkælingu

Lovísa Arnardóttir skrifar
Enn er unnið við varnargarðana.
Enn er unnið við varnargarðana. Mynd/Almannavarnir

Enn er glóð í gígnum í eldgosinu við Sundhnúk. Órói hefur minnkað en hraunflæðið virðist nokkuð stöðugt. Enn er unnið að hraunkælingu við varnargarða.

„Þessu er ekki lokið. Næturvaktin sá glóð í gígnum í nótt og óróinn sem fór dvínandi er ekki dauður úr öllum æðum. Þessu er ekki alveg lokið en er greinilega að halda í seinustu líftaugina,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Enn er unnið að hraunkælingu þar sem hraun hefur runnið yfir varnargarða en auk þess vinna Verkís og Efla að því að koma upp öðrum varnargarði fyrir innan.

Salóme segist skyggnið erfitt þannig það sjáist lítið frá gosstöðvum en þessu sé ekki alveg lokið.

Í vefmyndavél almannavarna við varnargarðinn sést vel glóandi hraun og eitthvað af bílum frá slökkviliði.

Salóme segist ekkert geta fullyrt um það hvenær eldgosinu lýkur en miðað við hvernig það hagar sér núna gæti því lokið um helgina. Hvað varðar hraunflæðið úr gosinu þá sé ólíklegt að það nái til orkuversins í Svartsengi en þó sé mikið að safnast saman við varnargarðana.

Nær sér ekki aftur upp

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að ólíklegt væri að gosið við Sundhnúk myndi nái sér upp aftur og að hægst hafi á landrisi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×