Lífið

Travis Scott hand­tekinn í Miami

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Travis Scott viðurkenndi að hafa verið drukkinn. Enda á Miami.
Travis Scott viðurkenndi að hafa verið drukkinn. Enda á Miami. EPA-EFE/CAROLINE BREHMAN

Rapparinn Travis Scott var handtekinn í Miami í nótt vegna drykkjuláta og rifrildis sem virðist hafa orðið til þess að rapparinn fór óleyfilega um borð í snekkju sem hann átti ekki. Rapparinn var handtekinn um klukkan 01:45 í nótt að staðartíma.

Í umfjöllun BBC um málið kemur fram að lögregla hafi verið kölluð út vegna rifrildis um borð í snekkju. Mikla áfengisandremmu mátti finna úr munni hins 33 ára gamla barnsföður Kylie Jenner, að sögn lögreglu.

Lögreglumenn fylgdu honum í burtu og kallaði hann ókvæðisorð að eigendum snekkjunnar. Hann yfirgaf svæðið en að sögn lögreglu var hann mættur aftur stuttu seinna og gerði tilraun til þess að komast aftur í snekkjuna.

Þá er hann sagður hafa virt skipanir lögreglumanna að vettugi og verið ógnandi. Að sögn lögreglu viðurkenndi Travis, sem raunverulega heitir Jaques Bermon Webster, í skýrslutöku að hann hafi verið fullur. „Þetta er Miami,“ er hann sagður hafa sagt við lögreglumennina.

Travis er Grammy-verðlaunahafi og einn af vinsælustu röppurum í heimi. Hann er ekki óumdeildur en árið 2021 létust tíu aðdáendur hans þegar þeir voru troðnir niður á tónlistarhátíðinni Astroworld í Houston í Texas. Travis var sýknaður af ábyrgð en aðstandendur hinna látnu hafa höfðað einkamál á hendur honum vegna þessa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×