Um áflog eða bardaga var að ræða, en maðurinn sem varð fyrir barðinu á steypuklumpnum var sakfelldur í desember fyrir að veita hinum manninum að minnsta kosti eitt högg. Hann var þó ekki dæmdur til refsingar.
Sjá nánar: Hafi verið þekktur á Akranesi fyrir að ofsækja konur
Í fyrstu var um eitt dómsmál að ræða, en því var skipt í tvennt þegar báðir menn neituðu sök fyrir sinn þátt.
Til einföldunar verður maðurinn sem hlaut dóm á dögunum, sá sem notaði steypuklump, hér eftir kallaður árásarmaðurinn. Hinn verður ýmist kallaður hinn maðurinn eða sá varð fyrir árásinni, þar sem héraðsdómur mat hans þátt sem talsvert vægari.
Allir í bæjarfélaginu viti um árásarmanninn
Fyrir dómi sagði árásarmaðurinn að aðdragandi málsins væri sá að þeir tveir hefðu átt í samskiptum á Facebook. Þar hafi hann lýst áhyggjum sínum vegna „tiltekinna atvika“ er vörðuðu stúlku. Hann sagði hinn manninn hafa sagst ætla að koma og lemja hann.
Í dómnum frá því í desember sagði sá sem varð fyrir árásinni að árásarmaðurinn hefði hrellt eiginkonu hans og verið með þráhyggju gagnvart kærustu frænda hans. Hann hafi verið orðinn reiður og pirraður á þessu og kvað hann „alla í bæjarfélaginu vita hver brotaþoli er og hann sé þekktur fyrir að ásækja konur.“
Ógnandi á jeppa
Í ákæru málsins kom fram að atvik málsins hafi átt sér stað við Strætóstoppustöð á Akranesi í mars 2022. Fyrir dómi sagði árásarmaðurinn að hinn manninn hafa komið á jeppa, verið ógnandi og keyrt upp á grasflöt. Hann hafi talið sig sjá eggvopn falið í lyklakippu hins mannsins og fyrr en varði hafi þeir verið farnir að slást í jörðinni.
Hann viðurkenndi að hafa notað steypuklumpinn, en vildi meina að um neyðarvörn hefði verið að ræða. Hann sagði manninn sem varð fyrir árásinni vera háan vexti og að fólk væri hrætt við hann.
Átökin hafi hætt þegar þriðji maðurinn á vettvangi hafi sagt þeim að stoppa. Þá hafi sá sem varð fyrir árásinni keyrt á brott og þriðji maðurinn hringt á lögreglu.
Búinn að angra stúlku mánuðum saman
Maðurinn sem varð fyrir árásinni sagði fyrir dómi hafa ætlað að ræða við árásarmanninn um málið er varðar stúlkuna. Hann hafi ætlað að spyrja hvort „ekki væri komið nóg“ þar sem árásarmaðurinn hefði verið að angra stúlkuna, sem og aðra sem henni tengjast, mánuðum saman.
Jafnframt sagði hann árásarmanninn hafa átt í hótunum við frænda hans.
Hann sagði árásarmanninn hafa sent sér skilaboð á Facebook og beðið hann um að koma, sem hann hafi gert. Hann hafi spurt hvort „þetta væri ekki orðið gott“ en fengið grjót í hausinn og rotast. Síðan hafi hann rankað við sér og árásarmaðurinn enn verið með grjótið að berja sig. Hann hafi beðið hann um að hætta, en án árangurs.
Að lokum hafi honum tekist að standa upp, séð blóð leka, farið upp í bíl og farið beint á sjúkrahús.
Hefði getað farið verr
Báðir mennirnir báru fyrir sig fyrir dómi að þeirra eigin þáttur væri neyðarvörn. Í hvorugu málinu féllst dómurinn á það. En líkt og áður segir var þeim sem varð fyrir árásinni ekki gerð refsing.
Árásarmaðurinn hlaut þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm en í dómnum segir að líta verði til þess að árásin, sem varð til þess að hinn hlaut skurði í andliti og nokkur tannbrot, hafi verið hættulegur og leitt til mikilla áverka. Þá væri ljóst að mun verr hefði getað farið fyrir hinum manninum en raun varð.
Þá er árásarmanninum gert að greiða hinum manninum 400 þúsund krónur í miskabætur og 300 þúsund í málskostnað. Þá þarf hann að greiða tæplega 1,2 milljónir í sakarkostnað.