Körfubolti

Kyrie Irving leyfir Luka Doncic ekki að axla á­byrgð á tapinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Liðsfélagarnir féllust í faðma eftir tapið í nótt
Liðsfélagarnir féllust í faðma eftir tapið í nótt Stephen Maturen/Getty Images

Kyrie Irving vill ekki láta Luka Doncic axla ábyrgð á tapi þeirra Dallas Mavericks manna gegn Boston Celtics í nótt. 

Doncic var frábær lengst af í leiknum og náði 30 stiga þrefaldri tvennu. Hann er aðeins sá fjórði í sögunni sem gerir það í tapleik í úrslitum NBA deildarinnar. Hann var hins vegar alveg bensínlaus undir lokin, tapaði boltanum og klikkaði á nokkrum vítaskotum sem er mjög úr karakter.

„Mínir töpuðu boltar og vítaklúður kostuðu okkur leikinn, ég verð að gera betur,“ sagði Doncic á blaðamannafundi eftir leik.

Kyrie Irving hefur ekki komið nógu mikið til hjálpar í fyrstu tveimur leikjum seríunnar. Hann hefur í báðum leikjum endað með færri stig heldur en skottilraunir. Þá á hann líka ennþá eftir að hitta úr þriggja stiga skoti en ekkert af átta skotum í síðustu tveimur leikjum hefur farið ofan í.

„Hann er ekki einn og við munum segja honum það. Þetta tekur á tilfinningarnar fyrir hann, honum finnst hann geta gert betur, alveg eins og mér. Ég verð að axla meiri ábyrgð, fyrstu tveir leikirnir hafa ekki verið þeir bestu hjá mér,“ sagði Irving svo eftir á.

Boston Celtics leiða einvígið 2-0 en nú verður haldið til Dallas þar sem Mavericks bjóða Celtics heim næstu tvo leiki. Þeir fara fram klukkan 00:30 aðfaranótt fimmtudags og aðfaranótt laugardags. Stöð 2 Sport verður með upphitun og beina útsendingu frá miðnætti.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×