Handbolti

Skaðinn skeður í hálf­leik hjá Magdeburg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson og Bennet Wiegert, þjálfari Magdeburg, fórna höndum.
Gísli Þorgeir Kristjánsson og Bennet Wiegert, þjálfari Magdeburg, fórna höndum. getty/Christof Koepsel

Íslendingaliðið Magdeburg laut í lægra haldi fyrir Kiel, 28-32, í leiknum um 3. sætið á úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í handbolta í dag.

Magdeburg tapaði fyrir Álaborg í undanúrslitunum í gær, 26-28, og það virtist sitja í leikmönnum liðsins, allavega í fyrri hálfleik.

Þá var Kiel miklu sterkari aðilinn og var með níu marka forskot þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Leikmenn Magdeburg tóku sig saman í andlitinu í seinni hálfleik og söxuðu á forskot Kiel. Munurinn varð þó aldrei minni en þrjú mörk og sigur Kiel var ekki í mikilli hættu.

Á endanum munaði fjórum mörkum á liðunum, 28-32, og Magdeburg fer því medalíulaust frá Köln.

Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fimm mörk fyrir Magdeburg og var næstmarkahæstur í liðinu á eftir Lukas Mertens sem skoraði átta mörk.

Ómar Ingi Magnússon skoraði þrjú mörk fyrir Magdeburg og Janus Daði Smárason skoraði tvö í sínum síðasta leik fyrir félagið. Hann gengur í raðir Pick Szeged í Ungverjalandi í sumar.

Þetta var síðasti leikur Magdeburg á löngu, ströngu og gjöfulu tímabili. Liðið vann þýsku úrvalsdeildina, bikarkeppnina og HM félagsliða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×