Íslenski boltinn

„Ég elska að vera í slags­málum“

Atli Arason skrifar
Kristrún Ýr Holm kann vel við sig í nýrri stöðu á miðjunni.
Kristrún Ýr Holm kann vel við sig í nýrri stöðu á miðjunni. vísir/anton

„Tilfinning er mjög góð. Þetta var baráttu sigur í dag og verðskuldaður sigur,“ sagði Kristrún Ýr Hólm, fyrirliði Keflavíkur, í viðtali eftir leik.

Það stóð ekki svörum er Kristrún var spurð af því hvers vegna Keflavík vann í dag.

„Mér fannst vera meiri barátta í okkur en hjá Víkingsliðinu. Við vildum þetta virkilega og svo var undirbúningurinn fyrir þennan leik góður, þannig við mættum tilbúnar til leiks,“ sagði Kristrún, sem telur Keflvíkinga vera á réttri leið.

„Stigasöfnunin hefur ekki verið góð hingað til, við unnum í síðasta leik og núna erum við búnar að finna rétta taktinn. Þá mun þetta fara að detta með okkur.“

Kristrún hefur spilað sem vinstri bakvörður mest allan fótboltaferill sinn en hefur verið að spila nýja stöðu sem djúpur miðjumaður það sem af er tímabili. Staða sem Kristrún er afar hrifin af.

„Ég er að elska þetta, ég elska að vera í slagsmálum og ég held að þetta sé fullkomin staða fyrir mig. Það er margt að læra en þetta kemur,“ sagði Kristrún með stórt bros á vör.

Næsti leikur Keflavíkur er gegn FH, sem Kristrún efast ekki um að sigra.

„Það er náttúrlega sjálfstraust sem við fáum eftir tvo sigurleiki í röð, eða þrjá sigurleiki ef maður telur bikarleikinn með. Við verðum bara að halda þessu róli áfram og ná í þetta sigurvegara hugarfar,“ sagði fyrirliðinn Kristrún Ýr Hólm að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×