Körfubolti

Spilaði í NBA en mun nú keppa í strand­blaki á Ólympíu­leikunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Chase Budinger í leik með Houston Rockets á sínum tíma.
Chase Budinger í leik með Houston Rockets á sínum tíma. EPA/LARRY W. SMITH CORBIS

Chase Budinger spilaði sjö ár í NBA-deildinni í körfubolta er er nú á leið til Parísar þar sem Ólympíuleikarnir fara fram til að keppa í strandblaki. Hinn 36 ára gamli Budinger spilar með Miles Evans en þeir tryggðu sér sæti á leikunum í dag, miðvikudag.

Budinger var fjölhæfur íþróttamaður á sínum yngri árum en valdiá endanum körfubolta. Í nýliðavalinu 2009 valdi Detroit Pistons hann en ákvað að skipta honum til Houston Rockets. Þar var hann til ársins 2012 þegar hann gekk í raðir Minnesota Timberwolves.

Þaðan fór hann til Indiana Pacers árið 2015 og Phoenix Suns ári síðar. Sama ár samdi hann við Baskonia á Spáni en lagði körfuboltaskóna svo á hilluna árið 2017. Skömmu síðar sneri hann sér að strandblaki og snýr nú aftur til Evrópu, að þessu sinni til að keppa í annarri íþrótt.

„Flestir eru frekar týndir eða ringlaðir þegar þeir leggja skóna á hilluna. Ég var heppinn að ná að skipta yfir í aðra íþrótt og spila á hæsta stigi,“ sagði Budinger í hlaðvarpsviðtali árið 2018.

Hann verður nú fyrsti leikmaður sögunnar til að hafa spilað í NBA-deildinni og í strandblaki á Ólympíuleikunum samkvæmt NBA Sports.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×