Innlent

Metfjöldi nem­enda þreytir sveins­próf í múr­verki

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Þráinn segir það merki um aukna jákvæðni í garð iðnnáms í íslensku samfélagi.
Þráinn segir það merki um aukna jákvæðni í garð iðnnáms í íslensku samfélagi. Vísir/Vilhelm

Metfjöldi nemenda taka sveinspróf í múrverki við Tækniskólann í vikunni eða alls 26. Þráinn Óskarsson kennari við múrdeild skólans segist finna fyrir aukinni jákvæðni í garð iðnnáms.

Þeir nemendur sem reyna nú við sveinsprófið í múrverki hófust handa snemma mánudagsmorguninn í skemmu í Skerjafirði. Til prófs eru ýmis undirstöðuatriði múverksins svo sem bygging veggja, trappa, flísalagning, steiningarsetning og ýmislegt fleira.

Nemendur eru látnir gera stykki samkvæmt teikningu eins og þessar fagurlega hlöðnu tröppur á myndinni hér að neðan eru gott dæmi um.

„Það er meiri jákvæðni fyrir iðnmenntun orðin í dag. Það eru alltaf fleiri og fleiri að koma beint úr grunnskóla í iðnnám, sem var minna um áður fyrr. Það voru á síðustu önn rúmlega fimmtíu að læra múrverk. Það hefur aldrei verið svona mikið,“ segir Þráinn í samtali við fréttastofu.

Nemendur hafa frá átta að morgni til sex um kvöld til að vinna að verkefnum sínum og svo kemur sveinsprófsnefnd skipuð þremur múrarameisturum á föstudaginn að meta árangur nemendanna.

Aldursbil nemenda er allt frá tvítugu og upp í rúmlega sextugt að sögn Þráins og það eru bara nemendurnir sem þreyta prófið. Rúmlega fimmtíu nemendur á öllum aldri námu múrverk í Tækniskólanum í vetur.

Nemendurnir þreyta einnig bóklegt próf.Þráinn Óskarsson

Sem kennarinn þeirra má Þráinn ekki skipta sér að vinnu nemenda en hann kíkti í skemmuna í dag til að sjá afraksturinn.

„Það er virkilega gaman að fylgjast með þessu,“ segir Þráinn.

Í kjölfar mats sveinsprófsnefndarinnar verður fjölskyldu og vinum boðið að skoða árangur nemendanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×