Íslenski boltinn

Sjáðu öll átta mörkin og rauða spjaldið í Reykjavíkurslagnum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
KR þurfti oft að tína boltann úr eigin neti í gærkvöldi eftir að hafa komist tveimur mörkum yfir.
KR þurfti oft að tína boltann úr eigin neti í gærkvöldi eftir að hafa komist tveimur mörkum yfir. Vísir/Anton Brink

Valur lagði KR að velli í Vesturbæ í miklum markaleik þar sem rautt spjald fór á loft. 

Fyrri hálfleikurinn var stórkostleg skemmtun. KR var komið tveimur mörkum yfir eftir sjö mínútna leik. Fyrst skoraði Aron Sigurðarson með frábæru skoti fyrir utan teig og Benóný Breki Andrésson tvöfaldaði forystuna innan við mínútu síðar með skallamarki á fjærstöng.

Tryggvi Hrafn Haraldsson minnkaði muninn á 12. mínútu með góðu marki og eftir það tók Valur öll völd á vellinum.

Á sex mínútna kafla voru svo skoruð þrjú mörk. Patrick Pedersen jafnaði í 2-2 á 31. mínútu eftir slakan varnarleik KR-inga. Tveimur mínútum síðar kom Tryggvi Val í 3-2 þegar hann kláraði frábærlega eftir langa sendingu frá markverðinum Fredrik Schram og Pedersen bætti fjórða markinu við þremur mínútum síðar með góðum skalla.

KR-ingurinn Finnur Tómas Pálmason var svo rekinn af velli með rautt spjald á 61. mínútu fyrir að brjóta á Gísla Laxdal Unnarssyni sem var í dauðafæri, en Gísli slapp í gegn eftir skelfileg mistök hjá Finni Tómasi sjálfum.

Gísli Laxdal skoraði svo sjálfur fimmta markið þegar hann slapp í gegn eftir að hafa leikið á rangstöðugildru KR og skorað af öryggi. Leikurinn fjaraði rólega út eftir þetta og sárabótamark Kristjáns Flóka Finnbogasonar undir lokin fyrir KR kom upp úr þurru.

Klippa: Mörkin og rauða spjaldið í Valur-KR

Mörkin öll átta talsins ásamt rauða spjaldinu má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

„Róm var ekki byggð á einum degi“

Gregg Ryder þjálfari KR segist ekki vera stoltur af því hvernig lið hans er að spila. KR tapaði 5-3 á heimavelli gegn Val í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×