Handbolti

Guð­mundur orð­laus

Aron Guðmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson hefur afrekað frábæra hluti með lið Fredericia á tímabilinu. Liðið jafnaði úrslitaeinvígið gegn Álaborg í dönsku úrvalsdeildinni og knúði fram hreinan úrslitaleik um danska meistaratitilinn
Guðmundur Guðmundsson hefur afrekað frábæra hluti með lið Fredericia á tímabilinu. Liðið jafnaði úrslitaeinvígið gegn Álaborg í dönsku úrvalsdeildinni og knúði fram hreinan úrslitaleik um danska meistaratitilinn Mynd: Fredericia

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska úrvalsdeildarfélagsins Frederica, var að vonum gífurlega stoltur af leikmönnum sínum sem þvinguðu fram hreinan úrslitaleik gegn Álaborg í úrslitaeinvígi dönsku úrvalsdeildarinnar í handbolta í gær með eins marks sigri á heimavelli. Guðmundur var nær orðlaus í viðtali við Fredericia Dagbladet eftir leik. Eitthvað sem er til marks um stolt hans af því hvernig lið Frederica tókst á við þessa prófraun.

„Stuðningurinn og andrúmsloftið hér. Ég hef aldrei upplifað þetta áður,“ sagði nær orðlaus Guðmundur Guðmundsson í viðtali við Fredericia Dagbladet eftir kyngi magnaðan sigur í öðrum leik liðsins gegn Álaborg í gær. Sigur sem þvingar fram hreinan oddaleik um danska meistaratitilinn í handbolta.

„Ég hef nú upplifað margt á mínum ferli. Til að mynda leiki í stóru höllunum í Þýskalandi en ekkert kemst í líkingu við þetta. Það er svo mikið hjarta og sál í þessu félagi. Stuðningsmennirnir frábærir.“

Hann segir liðið hafa haft fulla trú á sigri þrátt fyrir tap í fyrsta leik úrslitaeinvígisins gegn Álaborg.

„Það voru margir jákvæðir punktar sem við gátum tekið út úr fyrsta leiknum og tilfinningin fyrir leik tvö í þessu einvígi var því góð. Við ætluðum okkur að ná í úrslit og vorum vel skipulagðir, bæði varnar- og sóknarlega. Trúin þarf bara að vera til staðar. Það er lykillinn að þessu öllu.“

Á síðasta tímabili var þannig komist að orði að Guðmundur hefði vakið upp björn sem hafði verið sofandi í 43 ár. Það tímabil vann Frederica til bronsverðlauna í dönsku deildinni, fyrsta medalía liðsins í þessi 43 ár. Getur liðið sótt gullið í ár?

„Það er allt mögulegt. Ég ætla ekki að láta draga okkur upp í skýjaborgir núna,“ svaraði Guðmundur. „Liðið er undir pressu og við verðum að sjá hvernig okkur líður á morgun.“

Úrslitaleikurinn sjálfur í einvíginu mun fara fram á Sparekassen Danmark Arena, heimavelli Álaborgar á laugardaginn kemur. Sigurliðið þar verður Danmerkurmeistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×