Handbolti

Mikkel eftir tapið á móti liði Gumma Gumm: Þurfum að horfa inn á við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikkel Hansen skoraði fjögur mörk í leiknum í gær.
Mikkel Hansen skoraði fjögur mörk í leiknum í gær. Getty/Lars Baron

Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í Fredericia unnu stórlið Álaborgar í gær og tryggðu sér úrslitaleik um danska meistaratitilinn í handbolta á laugardaginn. Íslenski þjálfarinn er því einum sigri frá því að eyðileggja draumaendi eins besta handboltamanns Dana fyrr og síðar.

Í liði Álaborgar er nefnilega danska súperstjarnan Mikkel Hansen sem er á kveðjutímabili sínu. Pressan er á hans liði enda hefur Fredericia komið mörgum á óvart með frábærri frammistöðu.  Fredericia vann leikinn í gær 31-30.

„Við vorum ekki nógu góðir í dag. Við áttum nokkrum sinnum möguleika á því að komast þremur til fjórum mörkum yfir og ná meiri stjórn á leiknum,“ sagði Mikkel Hansen við TV2.

„Við þurfum bara að vera hreinskilnir við sjálfa okkur og horfa inn á við. Af hverju náðum við ekki að nýta þessa stöðu og skora þetta aukamark? Við náðum aldrei þeirri ró í leikinn sem við áttum möguleika á því að ná,“ sagði Hansen.

Hansen ætlar að leggja skóna á hilluna í sumar og Guðmundur og félagar geta komið í veg fyrir að hann endi sem danskur meistari. Úrslitaleikurinn í Álaborg á laugardaginn verður hans síðasti leikur með félagsliði.

„Við verðum að gera betur en í síðasta leik. Við þurfum að horfa í spegilinn og það er okkur að kenna að við unnum ekki. Ekkert hefur breyst. Við verðum bara að vinna næsta leik og þá verðum við meistarar,“ sagði Hansen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×