Icelandair sagði upp starfsfólki úr ýmsum deildum á skrifstofum og starfsstöðvum félagsins en þar störfuðu fyrir um átta hundruð manns. Engar uppsagnir voru hjá áhöfnum en alls starfa um fjögur þúsund og fimm hundruð manns hjá félaginu í sumar.
„Það er fyrst að segja að þetta er mjög erfiður dagur hjá okkur. Þetta eru í raun uppsagnir í öllum deildum félagsins nema í framleiðslutengdum deildum. Þetta eru uppsagnir á skrifstofunni hér á Reykjavíkurflugvelli, á skrifstofunni í Hafnarfirði, á starfsstöðinni í Keflavík og í Evrópu. Samtals eru þetta áttatíu og tveir starfsmenn sem láta af störfum í dag því miður.
Krefjandi aðstæður og minni eftirspurn
Hann segir að endurreisn félagsins eftir kórónuveirufaraldurinn hafi lokið í fyrra þegar þúsundir starfsmanna hafi verið ráðnir eða endurráðnir. Krefjandi aðstæður í efnahagslífinu hafi hins vegar kallað á aðhaldsaðgerðir nú.
„Nú erum við að einblína á að auka skilvirkni í rekstrinum. Þetta er því miður liður í því. Þá er rekstrarumhverfið krefjandi. Við erum að horfa á hækkanir á mörgum kostnaðarliðum. Verðbólgan er mikil og launakostnaður er að hækka meira en í samkeppnislöndum. Þá höfum við séð aðeins minnkandi eftirspurn eftir Íslandi.Nú er komið enn eitt eldgosið og jarðhræringarnar spila inni í þar. Svo er það samkeppnishæfni landsins. Ísland er dýrari en mörg lönd sem við erum að keppa við. Við erum því að velta við öllum steinum við í rekstrinum,“ segir Bogi.
Þurfi að styrkja ferðaþjónustuna
Það þurfi að efla ferðaþjónustuna enn frekar.
„Við verðum að vinna saman að því að styrkja íslenska ferðaþjónustu til framtíðar,“ segir Bogi að lokum.
Gengi Icelandair lækkaði um ríflega þrjú prósent í Kauphöllinni við tíðindin í dag og hefur þá lækkað um fjórðung á þessu ári.