Fótbolti

Upp­á­halds­fólkið í stúkunni þegar marka­drottningin var verð­launuð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diljá Ýr Zomers skoraði 23 mörk í belgísku deildinni á tímabilinu og varð markahæst.
Diljá Ýr Zomers skoraði 23 mörk í belgísku deildinni á tímabilinu og varð markahæst. @agencytotalfootball

Íslenska landsliðskonan Diljá Ýr Zomers varð markadrottning belgísku úrvalsdeildarinnar á þessu tímabili.

Diljá Ýr skoraði alls 23 deildarmörk með Oud-Heverlee Leuven á leiktíðinni. Hún skoraði sitt 23. og síðasta mark í stórsigri á Gent í lokaumferðinni um helgina.

Diljá skoraði 13 mörk í fyrri hlutanum og bætti síðan við tíu mörkum í úrslitakeppninni.

Hún skoraði næst mest í fyrri hlutanum, einu marki minna en Amelie Delabre hjá Anderlecht en skoraði aftur á móti tveimur mörkum meira en næsta kona í úrslitakeppninni.

Delabre skoraði bara fjögur mörk í úrslitakeppninni og endaði fimm mörkum á eftir íslenska framherjanum.

Hin írska Amber Barrett hjá St. Liege skoraði nítján mörk alveg eins og Nikee Van Dijk, liðsfélagi Diljáar hjá Leuven. Þær tvær voru í næstu sætum á eftir okkar konu.

Diljá var verðlaunuð eftir lokaleikinn. Hún sagði frá því á samfélagmiðlum sínum.

„Stolt af því að hafa endað tímabilið sem markadrottning deildarinnar og með uppáhaldsfólkið mitt í stúkunni,“ skrifaði Diljá eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×