„Þetta voru flottustu tónleikar sem haldnir hafa verið á Íslandi,“ sagði tónlistarmaðurinn Erpur Eyvindarson, Blazroca, meðlimur Rottweilerhundana í samtali við Vísi á dögunum um 25 ára afmælistónleika sveitarinnar. Uppselt var á viðburðinn sem fóru fram úr öllum væntingum, samkvæmt Erpi.
Hljómsveitin kom fyrst saman árið 1999 en skaust svo upp á stjörnuhimininn í mars árið 2000 þegar sveitin vann Músíktilraunir. Þegar síðan samnefnd platínuplata hljómsveitarinnar kom út undir lok árs 2001 varð sprenging sem ekki sér fyrir endann á, eins og segir í tilkynningu vegna tónleikanna.
Öllu var tjaldað til á tónleikunum. Á útisvæðinu voru fjórir matarvagnar, útibar, borð og bekkir, vindlatjald, tónlist og almenn gleði. Framleiddur var Rottweiler varningur fyrir tónleikana, bolir, hálsmen, plaköt og fleira sem var til sölu á tónleikunum.
Aron Gestsson ljósmyndari mætti á svæðið og myndaði stemninguna meðal tónleikagesta í fyrirpartýinu sem var á vegum Coca Cola og Víking.

























