Slík stúdentamótmæli hófust með mótmælum í Columbia-háskóla í New York-borg, sem breiddist síðan út til fleiri bandarískra háskóla auk evrópskra.
Í Hollandi hófust sambærileg mótmæli í háskólum í Amsterdam og Utrecht, en þar mættu stúdentar mikilli hörku lögreglu og sætti lögregla mikilli gagnrýni eftir að myndbönd af slíku lögregluofbeldi birtust á samfélagsmiðlum.
Ísabella Lena Borgarsdóttir hefur tekið þátt í stúdentamótmælum í Radboud háskólanum Nijmegen í Hollandi.
„Þetta setti af stað dómínó-áhrif út um allan heim. Hófst í Amsterdam, svo í Utrecth, Eindhoven og Maastricht. Það hafa verið mikil og góð samskipti milli stúdenta í þessum borgum, en í sumum þeirra hefur mikið lögregluofbeldi átt sér stað. Þar hafa háskólar beðið lögregluna um að færa nemendur af lóðinni með afli. Það hefur hins vegar ekki enn gerst hér í Nijmegen,“ segir Ísabella.

Mótmælendur hafa tjaldað síðustu níu daga á skólalóðinni. Kröfur stúdentanna eru að háskólinn slíti tengslum við ísraelska háskóla og fyrirtæki, fordæmi þjóðarmorð Ísraela á Palestínumönnum og sýni palestínsku fólki aukinn stuðning.

Stuðningur úr öllum bænum
Ísabella segir ákveðið samfélag hafa myndast á skólalóðinni í kringum tjaldbúðirnar.
„Við erum með göngur á hverjum degi, fyrirlestra og alls kyns skemmtilegt,“ segir Ísabella og nefnir hnappa og skiltagerð, ljóðalestur, matargerð og fleira sem tengist palestínskri menningu og matargerð.

„Við höfum fengið ýmsa styrki en fólk alls staðar að úr Nijmegen hefur komið með mat og fleira til okkar. Fólk sem ber virðingu fyrir og finnst þetta fallegt sem við erum að gera. Það er mjög gott að finna fyrir svona miklum stuðningi úr öllum bænum, sem er bara á stærð við Reykjavík.“
Stuðningurinn kemur einnig frá öðrum háskólum um allan heim, svo sem Mexíkó, Spáni og Þýskalandi.
„Á hverjum degi komum við saman og ræðum það sem er um að vera þann daginn, hvað þurfi að gera, hverjir hengja upp plaköt og hverjir sjái um gönguna. Það er mjög gaman að vera hluti af svona litlu samfélagi.“

Lokatakmark að stjórnvöld taki afstöðu
Viðbrögð skólans segir Ísabella hafa verið lítil.
„Það sem gerir okkur reið er að það hafi tekið skólann átta daga að rjúfa öll tengsl við rússneska skóla og fyrirtæki. Nú eru komnir níu dagar frá því þessi mótmæli hófust. Það er skrýtið að skólinn geti tekið svona skýra afstöðu með Úkraínu, en ekki Palestínu. Það skiptir ekki máli hvar börn eru drepin.“

Það hefur hins vegar enn ekki komið til átaka milli mótmælenda og lögreglu. Ísabella segir líklegt að átök mótmælenda og lögreglu í Amsterdam og Utrecht skýri skort á inngripi lögreglunnar.
„Það vill enginn skóli hafa það á orðspori sínu að kalla til lögreglu sem beitir nemendur þeirra ofbeldi. En starfsfólk skólans sýnir þessu mikinn stuðning, það hafa þegar 250 kennarar skrifað undir undirskriftalista okkar til stuðnings Palestínu.“
Lokatakmarkið sé hins vegar að fá stjórnvöld í Hollandi til að taka skýrari afstöðu gegn árásum Ísraela í Palestínu.
„Þetta klárast ekki hér.“