Íslenski boltinn

Vals­menn hafa unnið alla deildarleiki sína við HK frá hruni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leifur Andri Leifsson og félagar í HK hefur gengið afar illa í leikjum sínum við Valsmenn undanfarin ár.
Leifur Andri Leifsson og félagar í HK hefur gengið afar illa í leikjum sínum við Valsmenn undanfarin ár. Vísir/Hulda Margrét

17. ágúst 2008. Það er í síðasta skiptið sem HK náði í stig á móti Valsmönnum í efstu deild karla í fótbolta. HK-ingar reyna að breyta því í kvöld.

HK tekur á móti Val í Kórnum en þessi leikur liðanna er í sjöundu umferð Bestu deildar karla í fótbolta. Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Bestu deildar stöðinni.

HK liðið hefur unnið Íslandsmeistara Víkings og KR í síðustu tveimur leikjum sínum, sem voru jafnframt fyrstu sigurleikir Kópavogsliðsins á leiktíðinni. HK-ingar mæta því á sigurbraut í leik á móti sínum erfiðustu mótherjum ef marka má úrslitin undanfarin fimmtán ár.

  • Síðustu átta leikir Vals og HK í efstu deild:
  • 2023: Valur-HK 4-1
  • 2023: HK-Valur 0-5
  • 2021: HK-Valur 0-3
  • 2021: Valur-HK 3-2
  • 2020: Valur-HK 1-0
  • 2020: HK-Valur 0-4
  • 2019: Valur-HK 2-0
  • 2019: HK-Valur 1-2

Valsmenn hafa unnið síðustu átta leiki sína á móti HK í efstu deild eða alla leiki liðanna frá og með 2009 tímabilinu. Markatalan í þessum átta leikjum er 24-4, Val í vil. Allir leikirnir hafa verið síðan að HK komst aftur í deild þeirra bestu eftir ellefu ára fjarveru sumarið 2019.

HK vann 1-0 sigur á Val á Hlíðarenda í ágúst 2008 en hefur ekki fengið stig á móti Hlíðarendaliðinu eftir það. Almir Cosic skoraði eina mark HK í þeim leik.

HK hafði einnig unnið fyrri leik liðanna sumarið 2008, þegar liðið vann 4-2 sigur í júní í leik sem fór fram á Kópavogsvellinum sem þá var heimavöllur HK. Daninn Iddi Alkhag skoraði þrennu í þeim leik.

Þetta eru einu stig HK í tólf innbyrðis leikjum Vals og HK í efstu deild karla í fótbolta.

Valsmenn unnu báða leiki liðanna í fyrra með samtals markatölunni 9-1, fyrst 5-0 í Kórnum og svo 4-1 á Hlíðarenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×