Sport

Jón Arnar grét það ekki að sjá Daníel slá þrjá­tíu ára Ís­lands­­met sitt

Aron Guðmundsson skrifar
Daníel Ingi gerði sér lítið fyrir og bætti þrjátíu ára gamalt Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar í langstökki í gær. Hann tryggði sér um leið sæti á EM í róm og Norðurlandameistaratitilinn í langstökki.
Daníel Ingi gerði sér lítið fyrir og bætti þrjátíu ára gamalt Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar í langstökki í gær. Hann tryggði sér um leið sæti á EM í róm og Norðurlandameistaratitilinn í langstökki. Vísir/Samsett mynd

Fyrr­verandi tug­þrautar­kappinn Jón Arnar Magnús­son grætur það ekki að hafa séð Ís­lands­met sitt í lang­stökki, sem stóð í þrjá­tíu ár, verða slegið af Daníel Inga Egils­syni í gær. Jón Arnar er sendi hamingju­óskir á Daníel um leið og hann sló metið og er gríðar­lega á­nægður fyrir hans hönd.

Daníel Ingi varð í gær Norður­landa­meistari í lang­stökki á nýju Ís­lands­meti þar sem að hann stór­bætti þrjá­tíu ára gamalt Ís­lands­met Jóns Arnars Magnús­sonar í greininni.

Daníel stökk 8,21 metra og bætti þar með Ís­lands­met Jóns Arnars og tryggði sér um leið Norður­landa­meistara­titilinn í greininni.. Met Jóns Arnars var sléttir átta metrar en Daníel sló það í þriðju til­raun sinni í gær með stökki upp á 8,01 metra og í fjórða stökki sínu bætti hann um betur og stökk 8,21 metra.

Daníel í atrennu að einu af stökki sínu í Malmö í gærMynd: FRÍ

„Ég gat nú ekki annað en farið beint að horfa á þetta stökk hjá honum. Al­gjör­lega geggjað,“ segir Jón Arnar í sam­tali við Vísi um af­rek Daníels Inga. Jón Arnar var á leið heim í bíl sínum er hann heyrði í út­varps­fréttunum í gær að þrjá­tíu ára Ís­lands­met hans í lang­stökki hefði verið slegið.

„Ég var bara á leiðinni heim og fór náttúru­lega strax í það að koma á­leiðis hamingju­óskum á drenginn. Hann átti síðasta stökkið sitt eftir þarna í Mal­mö og ég var nú þegar búinn að senda honum hamingju­óskir fyrir það stökk.

Mér finnst þetta frá­bært. Met eru sett til þess að verða á endanum slegin. Ég var nú aldrei ein­hver lang­stökkvari. Þetta var ein af þeim tíu greinum sem ég þreytti í tug­þrautinni. Það er frá­bært að það gangi svona vel hjá Daníel Inga.“

Svona á að fagna Íslandsmeti Mynd: FRÍ

Þú grætur það ekkert að sjá á eftir þessu meti þínu, sem stóð í þrjá­tíu ár, í hans greipar?

„Nei alls ekki. Ég er svo á­nægður fyrir hans hönd að vera kominn á þennan stað. Að það gangi svona vel hjá honum. Þetta opnar hurðir inn í stóra heiminn fyrir hann. Daníel hefur alla burði til þess að sækja bara fram. Það er tug­þrautar­þjálfari að þjálfa hann. Daníel fær því gott utan­um­hald og það þarf að standa þétt við bakið á honum sem og öllu frjáls­í­þrótta­fólki okkar.“

Stökk Daníels var það tólfta lengsta í heiminum á árinu og með því tryggði hann sér sæti á EM í Róm í júlí. Einnig gefur þetta hon­um mögu­leika á sæti á Ólymp­íu­leik­un­um í Par­ís í sum­ar en lág­markið er 8,27 m. Daníel jafnaði tólfta besta árangur á heimslista og á því möguleika á sæti á leikana gegnum heimslistann.

Daníel var skiljanlega himinlifandi þegar að afrekið rann upp fyrir honumMynd: FRÍ

„Þá fáum við kannski loksins aftur svona frjáls­í­þrótta vor og sumar. Það eru krakkar að koma þarna á hrað­siglingu upp. Það er vonandi að við fáum frjáls­í­þrótta­mann á Ólympíu­leikana með Guðna Val og Hilmari.“

Jón Arnar var búinn að bíða lengi eftir því að sjá Ís­lands­met sitt falla.

„Mér finnst nú eigin­lega bara ó­trú­legt að þetta hafi staðið svona lengi. Ekki var ég lang­stökkvari þegar að ég setti þetta met. Ég var ekki einu sinni farin að æfa tug­þraut þegar að ég setti þetta met á sínum tíma. Var ný­kominn til baka úr fót­broti. Það stóð en er nú fallið. Sem betur fer. Loksins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×