Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, hefur verið í miklum ham og skorað í öllum leikjum liðsins á árinu. Hún er til að mynda markahæst í Bestu deildinni með níu mörk í fimm leikjum.
Þau undur og stórmerki gerðust í dag að Sandra María skoraði ekki. Hún hafði hins vegar úrslitaáhrif á leikinn því hún lagði upp bæði mörk Þórs/KA.
Tindastóll komst yfir á 30. mínútu. Shelby Money, markvörður Þórs/KA, átti þá slæmt útspark beint á Hugrúnu Pálsdóttur. Hún kom boltanum á Jordyn Rhodes sem skoraði eftir skemmtilegan snúning.
Gestirnir frá Akureyri voru ekki lengi að jafna sig á þessu því fimm mínútum síðar jöfnuðu þeir. Sandra María sendi boltann þá á Karenu Maríu Sigurgeirsdóttur sem skoraði með góðu skoti upp í fjærhornið.
Á lokamínútu fyrri hálfleiks kom svo sigurmark Þórs/KA. Eftir flotta sókn sendi Sandra María á Huldu Ósk Jónsdóttur sem skoraði af öryggi.
Fleiri urðu mörkin ekki og Þór/KA fagnaði sigri og sæti í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins.