Fótbolti

Andri og Eiður mættir til Belgíu að semja

Sindri Sverrisson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen er sonur Eiðs Smára Guðjohnsen sem hjálpar honum með næstu skref í atvinnumennskunni.
Andri Lucas Guðjohnsen er sonur Eiðs Smára Guðjohnsen sem hjálpar honum með næstu skref í atvinnumennskunni. Vísir/Samsett mynd

Landsliðsframherjinn Andri Lucas Guðjohnsen er eftirsóttur enda markahæsti leikmaður dönsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta og hann mun nú eiga í viðræðum við belgíska félagið Gent.

Andri Lucas skoraði sitt þrettánda deildarmark á leiktíðinni fyrir Lyngby í fyrrakvöld og virðist svo hafa skellt sér til Belgíu ásamt föður sínum, Eiði Smára Guðjohnsen, í samningaviðræður við forráðamenn Gent.

Þetta fullyrðir belgíski miðillinn Het Laatste Nieuws sem segir jafnframt að Gent þurfi sárlega á sóknarmanni að halda, eftir að hafa missti Hugo Cuypers til Chicago Fire og Gift Orban til Lyon.

Helsti félagsskiptafréttamaður heims, Fabrizio Romano, hefur einnig staðfest að Andri Lucas gæti verið á leiðinni í raðir Gent.

Andri Lucas gæti þar með orðið þriðji ættliður Guðjohnsen-ættarinnar til þess að spila í Belgíu en þar spilaði Eiður fyrir Cercle og Club Brugge, og Arnór afi hans Lokeren og Anderlecht

Andri Lucas, sem er 22 ára, kom til Lyngby að láni frá Norrköping í Svíþjóð í fyrrasumar en Lyngby tilkynnti svo í síðasta mánuði að félagið hefði keypt hann, og samið við hann til þriggja ára. Hlutirnir gerast því hratt hjá Andra sem hóf ferilinn með varaliði Real Madrid, eftir að hafa alist upp meðal annars hjá Barcelona og Real.

Belgísku deildinni er skipt upp í þrennt á vorin eftir stöðu liða, og er Gent nú efst í miðjuhlutanum og nánast búið að tryggja sér efsta sætið þar, og þar með sæti í umspili Sambandsdeildar Evrópu. Sex lið eru í efsta hlutanum og því má segja að Gent hafi verið sjöunda besta liðið í Belgíu á leiktíðinni.


Tengdar fréttir

Andri Lucas fékk kanilstykki í verðlaun

Andri Lucas Guðjohnsen skoraði sitt þrettánda mark fyrir Lyngby í gær og er markahæstur í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Því var vel fagnað í klefanum eftir 2-1 sigurinn gegn OB í gær, og Andri Lucas er staðráðinn í að verða markakóngur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×