Upphitunarþáttinn má sjá hér að neðan en 4. umferðin hefst í dag með þremur leikjum, og tveir leikir eru svo á morgun.
Fylkiskonur hafa blásið á hrakspár í fyrstu umferðum mótsins og enn ekki tapað leik, en þær fara norður á Akureyri á morgun, vegna viðgerða á vellinum á Sauðárkróki, og mæta Tindastóli.
Fylki var spáð falli fyrir mótið en hefur gert jafntefli við Þrótt og Víking, og vann svo 4-2 sigur gegn Keflavík í síðustu viku. Eva segir þessa sterku byrjun ekki endilega hafa komið á óvart:
„Já og nei. Við förum náttúrulega í alla leiki til að vinna þannig að það er geggjað að þetta hafi byrjað svona vel.“
„Okkur var spáð falli en við höfum ekkert verið að líta á það. Við förum í hvern leik til þess að vinna og erum ótrúlega ánægðar með að vera komnar með þessi stig, en alls ekki búnar. Það er bara upp, upp og áfram,“ segir Signý sem er uppalin í Fylki en lék í tvö ár með Aftureldingu þegar hún var að taka fyrstu skrefin í meistaraflokki, 2021 og 2022.

Eva er aftur á móti uppalin í Afutreldingu og lék einnig með HK/Víkingi áður en hún fór til Fylkis fyrir sumarið 2020. Með Fylki hefur hún því bæði spilað í efstu deild, farið niður um deild og svo aftur upp í Bestu deildina í fyrra. Fylki er svo spáð aftur niður í ár:
„Maður er meðvitaður um þetta, að okkur var spáð falli og það er eðlilegt sem nýliðar, en við erum alls ekkert að pæla í spánni. Við fókusum á okkar markmið og erum mjög samstilltar í því, ásamt þjálfurum okkar,“ segir Signý.
„Þetta [spáin] hjálpar okkur frekar en eitthvað annað,“ segir Eva og Signý tekur undir: „Við notum þetta frekar sem pepp en einhverja óþægilega pressu.“
Allir leikirnir í 4. umferð verða gerðir upp í Bestu mörkunum á Stöð 2 Sport á morgun klukkan 18, strax eftir leiki Víkings og Þórs/KA, og Tindastóls og Fylkis.