Stéttarfélögin og Samtök atvinnulífsins gengu til fundar ríkissáttasemjara í hádeginu. Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis sagðist bjartsýnn þegar fréttamaður náði tali af honum á leiðinni á fundinn. Þá sagði hann koma til greina að fresta fyrirhuguðum verkfallsaðgerðum ef hann myndi skynja góðan samningsvilja hjá samningamönnum.
Á sjöunda tímanum barst fréttastofu heimildir um að búist væri við að fundurinn drægist á langinn. Í samtali við Vísi á elleta tímanum sagði Þórarinn að viðræður væru á viðkvæmu stigi og að fundinum væri frestað til klukkan níu í fyrramálið. Frestunina staðfesti Aldís Magnúsdóttir sáttasemjari sömuleiðis í samtali við fréttastofu.
Að öllu óbreyttu hefjast aðgerðir á Keflavíkurflugvelli síðdegis á fimmtudaginn og koma til með að valda talsverðu raski á flugi. Aðgerðirnar munu koma til framkvæmda kl. 16:00 á fimmtudaginn og verða með eftirfarandi hætti:
- Frá kl. 16:00 fimmtudaginn 9. maí 2024 hefst ótímabundið yfirvinnubann. Yfirvinnubannið nær til allra félagsmanna Sameykis og FFR.
- Frá kl. 16:00 fimmtudaginn 9. maí 2024 hefst ótímabundið þjálfunarbann. Þjálfunarbann tekur til félagsfólks Sameykis og FFR sem starfar sem leiðbeinandi og vottaður leiðbeinandi á gólfi.
- Á tímabilinu frá kl. 04:00-08:00, föstudaginn 10. maí 2024, mun starfsfólk sem sinnir öryggisleit á Keflavíkurflugvelli leggja niður störf sín.
- Á tímabilinu frá kl. 04:00-08:00, fimmtudaginn 16. maí 2024, mun starfsfólk sem sinnir öryggisleit á Keflavíkurflugvelli leggja niður störf sín.
- Á tímabilinu frá kl. 04:00-08:00, föstudaginn 17. maí 2024, mun starfsfólk sem sinnir öryggisleit á Keflavíkurflugvelli leggja niður störf sín.
- Á tímabilinu frá kl. 04:00-08:00, mánudaginn 20. maí 2024, mun starfsfólk sem sinnir öryggisleit á Keflavíkurflugvelli leggja niður störf sín.
Fréttin hefur verið uppfærð.