Körfubolti

Búið að fjar­lægja aug­­lýsingarnar af gólfinu í Smáranum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var fullt af auglýsingum á gólfinu í Smáranum en nú er búið að taka þær allar í burtu fyrir utan þessa sem er i miðjuhringnum.
Það var fullt af auglýsingum á gólfinu í Smáranum en nú er búið að taka þær allar í burtu fyrir utan þessa sem er i miðjuhringnum. Vísir/Óttar

Auglýsingar á gólfi íþróttahússins í Smáranum hafa verið teknar í burtu eftir slysið sem varð í síðasta leik í húsinu.

Remy Martin spilar ekki meira með Keflvíkingum í úrslitakeppni Subway deildar karla í körfubolta eftir að hafa rifið hásin í fyrsta undanúrslitaleiknum á móti Grindavík.

Martin virtist renna á auglýsingu á gólfinu í Smáranum þegar hann meiddist. Martin fór á kostum með bikarmeisturum Keflavíkur í vetur en meiðsli eins og hann glímir nú við geti orðið til þess að ferlinum hans ljúki. Vonandi tekst honum að koma til baka.

Hér fyrir neðan má sjá atvikið þegar Martin meiðist.

Stjórn ÍTK, Íslensks toppkörfubolta, sendi frá sér yfirlýsingu í framhaldinu þar sem kallað var eftir því að auglýsingar á gólfum körfuboltavalla verði bannaðar þar sem þær geta valdið alvarlegum slysum.

Auglýsingar eins og þessi eru límdar á gólf flestra íþróttahúsa landsins og hafa verið til staðar í áraraðir. Þær geta hins vegar skapað hættu fyrir leikmenn vegna þess að þær safna upp ryki hraðar en hinn almenni gólfflötur.

Nýjustu fréttir frá Smáranum eru að það er nú búið að fjarlægja allar þessar auglýsingarnar af gólfinu í Smáranum. Nú eru allar auglýsingarnar farnar fyrir utan auglýsinguna í miðjuhringnum.

Næsti leikur í einvígi Grindavíkur og Keflavíkur fer einmitt fram í Smáranum á miðvikudagskvöldið kemur en staðan í einvíginu er 1-1 eftir að Keflvíkingar jöfnuðu metin á heimavelli sínum í gær.

Þriðji leikur Grindavíkur og Keflavíkur fer fram á þessu gólfi á miðvikudagskvöldið.Vísir/Óttar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×