Handbolti

Kielce kærir leikinn gegn Magdeburg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Kielce biðla til dómara leiksins gegn Magdeburg eftir lokasóknina örlagaríku.
Leikmenn Kielce biðla til dómara leiksins gegn Magdeburg eftir lokasóknina örlagaríku. getty/Ronny Hartmann

Kielce hefur kært leikinn gegn Magdeburg í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær. Póllandsmeistararnir voru afar ósáttir við dómgæsluna undir blálok leiksins.

Í síðustu sókn sinni töldu Kielce-menn að dómarar leiksins hefðu stöðvað leikinn of snemma. Ef Kielce hefði fengið að halda áfram og skorað hefði liðið unnið einvígið.

Magdeburg vann leikinn, 23-22, eftir eins marks sigur Kielce í fyrri leiknum í Póllandi, 27-26. Úrslit einvígisins réðust í vítakastskeppni þar sem Magdeburg hafði betur. 

Sergey Hernández, markvörður Magdeburg, varði þrjú víti frá leikmönnum Kielce og Ómar Ingi Magnússon tryggði þýska liðinu svo sæti í undanúrslitum með því að skora úr síðasta víti þess.

Kielce greindi í dag frá því að félagið hefði sent inn formlega kvörtun til EHF, Handknattleikssambands Evrópu, vegna atviksins í síðustu sókninni.

Haukur Þrastarson skoraði þrjú mörk fyrir Kielce í leiknum í gær. Ómar Ingi gerði sex mörk fyrir Magdeburg, Janus Daði Smárason tvö en Gísli Þorgeir Kristjánsson komst ekki á blað.

Auk Magdeburg er danska liðið Álaborg komið í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Úrslitahelgi hennar fer venju samkvæmt fram í Lanxess höllinni í Köln í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×