Handbolti

Róbert fer frá Drammen og vill spila nærri Andreu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Róbert Sigurðarson reynir markskot í úrslitarimmu ÍBV og Hauka um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra.
Róbert Sigurðarson reynir markskot í úrslitarimmu ÍBV og Hauka um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra. vísir/hulda margrét

Handboltamaðurinn Róbert Sigurðarson yfirgefur norska úrvalsdeildarliðið Drammen í sumar.

Róbert gekk í raðir Drammen frá ÍBV síðasta sumar. Hann gerði tveggja ára samning við félagið en hefur núna ákveðið að nýta sér uppsagnarákvæði í honum.

Á heimasíðu Drammen segir Róbert að sér líði vel hjá félaginu og í Noregi en inni á vellinum hafi hlutirnir ekki alveg gengið upp. 

Kristian Kjelling, þjálfari Drammen, segist vera ánægður með Róbert en hann hafi sennilega ekki fengið að spila jafn mikið og hann vonaðist eftir.

Í fréttinni segir að Róbert vilji helst vera áfram úti og spila nálægt kærustu sinni, Andreu Jacobsen, landsliðskonu í handbolta. Hún leikur með Silkeborg-Voel í Danmörku en fer frá félaginu eftir tímabilið.

Róbert, sem er 28 ára, lék með ÍBV í sex ár og varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari og tvisvar sinnum bikarmeistari með liðinu.

Tímabilinu hjá Drammen er lokið en liðið tapaði fyrir Kolstad í undanúrslitum úrslitakeppninnar. Drammen endaði í 5. sæti í deildakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×